Á morgunverðarfundi Deloitte um PPP verkefni (e. Public Private Partnerships), sem felur í sér samstarf ríkis og einkaaðila í framkvæmdum, benti Ólöf Nordal innanríkisráðherra á þörf fyrir fjárfestingum á innviðum hér á landi.

Hætta bútasaumi

Þar nefndi hún sérstaklega vegaframkvæmdir, sem hún telur vera langt undir því sem eðlilegt teljist. Telur hún bæði aukið álag á vegi og aukna þyngd bifreiða áhrifaþætti sem ýta undir mikilvægi vegaframkvæmda. Hún vill meðal annars stuðla að aukinni tvöföldun vega.

Ólöf er orðin þreytt á því sem hún kallar bútasaum í vegagerð og telur það gífurlega mikilvægt að horfa heildrænt á vegakerfi landsins og uppbyggingu á því. Uppsöfnuð þörf á framkvæmdum er um 50-60 milljarðar að mati Ólafar. Á síðasta ári fól Ólöf hópi sérfræðinga að skoða uppbyggingu vegakerfisins.

Umræða á Íslandi fær falleinkunn

Almar Guðmundsson, framkvæmdarstjóri SI bendir einnig að vegafjárfestingar séu líklega dýrustu innviðir Íslands og sveiflist of mikið með hagsveiflu. Vegafjárfestingar hins opinbera fari minnkandi og að það sé mikil þörf a slíkum fjárfestum. Hlutfall af vegafjárfestingum í útgjöldum ríkisins hafa lækkað á sama tíma og umferð hefur aukist.

Því telur hann þörf á fjölbreyttari möguleikum í fjármögnum fjárfestinga í innviðum. Almar telur umræðuna á Íslandi fá falleinkunn, að hún sé of svarthvít. Verkefni þar sem einkaaðilar og ríki vinni saman, gætu því verið vopn í vopnabúri Íslands.

Horfir til PPP

PPP er hugtak sem notað er um verkefni, þar sem að ríkið vinnur með einkaaðilum við fjárfestingu og framkvæmd verkefna að beiðni opinbers aðila - þannig að áhættu sé skipt á milli einkaaðila og ríkis. Ólöf segir það mikilvægt að horfa á heildarmyndina - að það sé vöntun á fjárfestingu og ef ríkið fari í of miklar framkvæmdir, gæti það ýtt undir þenslu.

„Það þarf að taka skrefið“

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Ólöf að ríkið geti litið í mjög margar áttir þegar kemur að fjármögnun á stórum verkefnum. Nefnir hún þar á meðal framkvæmdar á Sundahöfn sem dæmi. Telur hún að megi horfa á þetta í víðara samhengi og sjá hvar þetta módel getur átt við. Ekki endilega sem endanlegt svar heldur sem valkostur. Þá nefnir hún sérstaklega þennan valkost þegar kemur að minni vegaframkvæmdum.

Það vantar að taka skrefið að mati Ólafar og skoða þetta að fullu. Íslendingar gætu lært af nágrannaþjóðum okkar og þeirra reynslu. Hún óttast að umræðan um samvinnuna sem hefur verið nefnd hér gæti reynst pólitískt erfið.

Það verði að leita leiða til að fjármagna þau verkefni sem tengjast innviðum landsins — þar gæti meðal annars komið inn fjárfesting einkaaðila. Þekktasta dæmið er líklega Hvalfjarðargöngin þar sem að ríkið vann með einkafyrirtækinu Speli að byggingu gangana. Þetta hefur verið nefnt sem dæmi þar sem að slík samvinna hefur gengið vel.

Þó felist einnig hættur í slíkri samvinnu, því telur Ólöf nauðsynlegt að skoða vel kosti og galla áður en ráðist er í slíkar framkvæmdir á faglegan máta.