Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að þokkalegt jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar á íbúðamarkaði verði komið á árið 2019. Það er ef spár ganga eftir, að því er Morgunblaðið greinir frá, en í þjóðhagsspá bankans er talað um mikinn kipp á síðasta ári í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá gerir spáin ráð fyrir að áfram verði miklar íbúðafjárfestingar, eða um 25% í ár, 16% á því næsta og 9% árið 2019. „Vöxturinn nam rúmum þriðjungi, og var hann hraðari á seinni helmingi ársins en þeim fyrri. Margir þættir ýta undir íbúðafjárfestingu um þessar mundir,“ segir Jón Bjarki.

„Kaupmáttur heimilanna hefur aukist hröðum skrefum og fjárhagsleg staða þeirra styrkst, lánskjör hafa batnað og fólksfjölgun hefur verið allhröð. Í kjölfarið hefur raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað hratt.“