Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra og Dagur B. Eggertsson sammæltust fyrr í dag um að Harpan yrði böðuð grænum lit til þess að mótmæla ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkin út úr Parísarsáttmálanum sem gengur út á að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og berjast þannig gegn loftslagsbreytingum.

Um leið og ákvörðun forsetans er mótmælt er gjörningurinn einnig til þess fallinn að undirstrika mikilvægi þess að hér á landi verður ekki slegið slöku við að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Fjölmargar byggingar, víða um heim hafa einnig verið lýstar upp í grænum lit til þess að mótmæla áformunum. Þá hafa hefur almenningur, vísindamenn, borgir þjóðir auk margra stjórnenda bandarískra fyrirtækja mótmælt ákvörðuninni eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag.