*

þriðjudagur, 24. október 2017
Erlent 19. júní 2017 19:46

Svartsýnn á stöðuna í heimshagkerfinu

Forstjóri LVMH segir að bóla sé að myndast og það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær hún springur.

Ritstjórn
epa

Bernard Arnault forstjóri stærsta lúxusvöruframleiðandi heims, LVMH er vægast sagt svartsýnn á horfur í heimshagkerfinu. Í viðtali við CNBC síðastliðinn föstudag sagði hann stöðuna í hagkerfum heimsins vera ógnvænlega til meðallangs tíma.

Eins og fleiri sem hafa gagnrýnt stöðu efnahagsmála á undanförnum misserum rökstuddi hann orð sýn með því að verð á hlutabréfum væri hátt og að lágt vaxtarstig myndi á endanum hafa slæmar afleiðingar. „Ég held að bóla sé að myndast og einn daginn mun þessi bóla springa" sagði Arnault. 

Arnault sem er forstjóri fyrirtækis sem á meðal annars vörumerkin Louis Vuitton. Möet og Hennesy gaf þó ekki upp neina tímasetningu á því hvenær bólan myndi springa en benti á að það gæti gerst fljótlega þar sem tíu ár væru liðin frá síðasta fjármálahruni og sagði að bólur ættu það til að springa á 10 ára fresti.

Þrátt fyrir almenna svartsýni um nánustu framtíð segist Arnault vera bjartsýn á horfur til langs tíma. Vonast hann til að tækniframfarir muni á endanum örva hagkerfi heimsins.