19,5 milljóna króna tap var af rekstri Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs samkvæmt rekstrarreikningi.  Árið 2016 var kosningaár, en þá var kosið til Alþingis og skýrist neikvæð staða í árslok af því. „Skuldir vegna kosninganna voru greiddar upp að fullu í febrúar.  Nú réttu ári síðar eru Alþingiskosningar að nýju og stefnir því aftur í tap á árinu 2017,“ segir í tilkynningu frá VG. Árið 2015 hagnaðist flokkurinn um 22,8 milljónir króna.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hyggst stjórnmálahreyfingin taka lán til að fjármagna komandi kosningabaráttu og skaut Katrín Jakobsdóttir formaður flokksins á að heildarkostnaðurinn gæti numið 20 milljónum króna.

Framlög Alþingis til VG á síðasta ári námu rúmum 43 milljónum króna. Framlög frá einstaklingum voru tæpar 12 milljónir en frá lögaðilum 6.7 milljónir.  Rekstrargjöld VG námu 89,7 milljónum króna í fyrra samanborið við 30,8 milljónir árið 2015, sem skýrist að líkindum á kosningum. Skuldir VG námu 21,5 milljónum króna í árslok 2016, samanborið við 7,2 milljónir á sama tíma árið 2015.

Átta lögaðilar greiddu hámarksframlag til VG samkvæmt lögum, sem nemur 400 þúsund krónum. Það voru eftirfarandi: HB Grandi, MATA hf., Síminn hf., Brim hf., Mannvit hf., Samherji Ísland ehf., N1 hf., og Loðnuvinnslan hf. Fáskrúðsfirði. Hægt er að nálgast ársreikning flokksins hér.