Verkalýðsforkólfar á borð við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, hafa boðað aðgerðir gegn svokallaðri „græðgisvæðingu“ leigufélaga. Þannig boðaði formaðurinn á útmánuðum að VR undirbyggi stofnun leigufélags sem myndi leigja út íbúðir á 15-30% ódýrari kjörum en almennt gengur og gerist á markaði.

Í grein sem birtist í VR-blaðinu í mars skrifaði Ragnar: „Okkar krafa um ávöxtun er alltaf sú sama. Krafan snýr ekki að markaðsaðstæðum á húsnæðismarkaði hverju sinni en aðstæður eru skelfilegar fyrir almenning um þessar mundir. Markaðsaðstæður eru aftur á móti gjöfular fyrir græðgisdrifna auðhringi sem svífast einskis til að græða sem mest á sem skemmstum tíma án þess að taka tillit til langtímahagsmuna heillar þjóðar. Það sorglega er að mörg leigufélög virðast nýta sér þetta hörmulega ástand og eru dæmi um að fjölskyldum sé sagt upp leigu eingöngu til að fá boð um að halda svo áfram á 20% hærra verði eða hypja sig. Þessu viljum við breyta. Þessu verðum við að breyta!“

Sé forystu VR alvara með þessum áformum ætti að hún að líta til þeirra tækifæra sem nú gefast á markaði. Nýlega var leigufélagið Heimavellir skráð í Kauphöllina. Eftir að viðskipti hófust með hlutabréf Heimavalla í Kauphöllinni hefur markaðsvirði félagsins verið á bilinu 13 til 14 milljarðar þegar þetta er skrifað.

Að sama skapi eiga Heimavellir um 2 þúsund íbúðir sem eru í útleigu um land allt og er andvirði þeirra metið á ríflega 50 milljarða í bókum félagsins. Þessi mikli munur á markaðsvirði og upplausnarvirði félagsins skapar Ragnari og öðrum andstæðingum „græðgisvæðingu“ leigufélaga mikil og spennandi tækifæri.

VR ætti að hafa forystu um að taka yfir Heimavelli og sýna hvernig eigi að standa að rekstri slíkra félaga.