Í fyrstu grein af þremur um þetta efni voru deilurnar um áformaða Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum settar samhengi við alþjóðavæðinguna (e. Globalisation ), en fyrir liggur að markaðsskráð kanadískt félag mun, ef af verður, verða helsti eigandi virkjunarinnar óbeint í gegnum eignarhald á HS Orku og VesturVerki . Einnig var lýst viðhorfum gagnvart alþjóðavæðingunni og áhyggjum manna af áhrifamætti alþjóðafyrirtækja.

Í þessari grein verður fjallað um sögulegan aðdraganda þess að lögum var breytt á þann veg að félög gátu verið sjálfstæðar lögpersónur þar sem ábyrgð hluthafa var takmörkuð við hlutafjárframlagið, þróun þessa félagaforms og hugmyndir manna um samsvörun á milli einkenna hlutafélagsins sem stofnunar og persónueinkenna siðblindingja (e. Psychopath ). Í þriðju og síðustu greininni verður fjallað um reglusetninguna sjálfa, hvernig hún hefur haft tilhneigingu til að draga taum fyrirtækjanna og hvernig má mögulega bregðast við því.

Rétt er að ítreka að í þessum greinum er hvorki tekin afstaða til virkjunar né til framgöngu þeirra aðila sem að málinu koma.

Ábyrgð hluthafa takmörkuð

Það var ekki fyrr en á síðari hluta 19. aldar sem félög gátu orðið sjálfstæðar lögpersónur þar sem ábyrgð hluthafa var takmörkuð við hlutafjárframlagið. Áður hafði ábyrgð hluthafanna verið ótakmörkuð, þ.e. hluthafarnir báru ábyrgð á öllum skuldbindingum félagsins, sem varð til þess að hluthafarnir voru jafnan einnig stjórnendur félagsins til að stýra sinni persónulegri áhættu. Markmiðið með breytingunni var að mynda lagalega stofnun, sem gat skilið á milli hluthafa og stjórnenda og þannig sameinað fjármagn og þar með efnahagslegan styrkleika ótakmarkaðs fjölda manna, þannig að hún væri fær um að fjármagna stórframkvæmdir iðnbyltingarinnar, s.s. eins og námugröft, járnbrautarlagningu og hvers konar framleiðslu.

Efnahagslegir kostir þessarar breytingar eru ljósir, en menn höfðu strax við breytinguna á 19. öld áhyggjur af því að siðferðileg ábyrgð hluthafa og stjórnenda myndi minnka, þar sem þeir gátu nú tekið meiri áhættu, í von um meiri hagnað, án þess að súpa seyðið af afleiðingunum ef illa færi. Áherslan á hagsmuni hluthafa, þ.e. að stjórnendur skyldu eingöngu hugsa um að hámarka hagnað hluthafanna varð sérstaklega áberandi á síðustu áratugum 20. aldar og hefur verið það síðan. Hluti af því að hámarka hagnað hluthafa er að tryggja aðgang að erlendum mörkuðum eða aðföngum þegar það á við, þ.m.t . með erlendum fjárfestingum.

„Siðblinda“ félagaformsins Það er í þessu samhengi sem upp spretta hugmyndir manna um samsvörun á milli einkenna hlutafélagsins sem stofnunar og persónueinkenna siðblindingja (e. Psychopath ). Kanadíski lagaprófessorinn Joel Bakan fjallar um þetta í bók sinni The Corporation The Pathological Pursuit of Profit and Power . Hann fékk sérfræðing í siðblindu til að skoða viðhorf og gerðir stjórnenda félaga þegar þeir störfuðu fyrir félögin og til að bera saman einkenni hlutafélagsins sem stofnunar og einkenni siðblindingja. Niðurstaðan var mikil samsvörun. Ýmis dæmi eru tekin, eins og af viðhorfi stjórnenda sem vilja „rústa samkeppnisaðilunum, eða sigra þá með einum eða öðrum hætti“ eða eru „ekkert sérstaklega uppteknir af áhrifunum á almenning, svo lengi sem hann kaupir vöruna“ og einnig af félögum sem endurspegla sterk einkenni siðblindu, eins og t.d. bandaríska orkufyrirtækið Enron . Íslendingar eiga sín dæmi, bæði fyrir hrun og eftir.

Siðblindusérfræðingurinn leggur áherslu á að stjórnendurnir séu ekki siðblindingjar þótt þeir geti sem stjórnendur hegðað sér á siðblindan hátt, því þeir séu jafnan eðlilegir utan félaganna, eigi heimili og fjölskyldur sem þeir eiga í nánum og ástríkum samskiptum við. Öðru máli gegni hins vegar um félögin sjálf sem stofnanir. Þau séu sjálfhverf og ófær um að finna til með öðrum í neinu samhengi.

Ábyrgð ríkisins

Joel Bakan leggur áherslu á að þótt félög séu persónur að lögum, svokallaðar lögpersónur, megum við ekki gleyma því að þau eru ekki persónur eða menn og því getum við ekki búist við öðru en að þau hagi sér á ómennskan hátt eða eins og siðblindingjar. Það sem Bakan leggur hins vegar áherslu á að við gerum og það er lykilatriði, er að setja félögunum takmörk eða reglur með þessa vitneskju í huga. Þess vegna skiptir sjálfstætt og sterkt ríkisvald svo miklu máli til að skapa jafnvægi á milli einstakra hópa samfélagsins. Ef fulltrúa ríkisvaldsins skortir vilja eða getu til að taka á málum með ábyrgum hætti, eins og t.d. að standast þrýsting fyrirtækjanna og setja þeim eðlileg mörk í formi reglna og tryggja svo að eftir þeim verði farið, er viðbúið að aðgerðasinnar láti til sín taka. Aðgerðarsinnar gegna því mikilvægu hlutverki, rétt eins og fyrirtækin og ríkisvaldið. Öllum þessum aðilum getur hins vegar orðið á við framkvæmd síns mikilvæga hlutverks, svo sem við meðferð persónuupplýsinga eins og Cambridge Analytica og Facebook eða við stjórnun sveitarfélags og flutning lögheimilis, svo einhver dæmi séu tekin.

En hvernig getur ríkisvaldið nálgast þetta hlutverk sitt þannig að umrætt jafnvægi skapist á milli einstakra hópa samfélagsins? Það verður umfjöllunarefni þriðju og síðustu greinarinnar. Þar verður jafnframt lýst hvernig reglusetningin hefur haft tilhneigingu til að draga taum fyrirtækjanna og skapa ójafnvægi milli umræddra hópa, einkum í tengslum við erlendar fjárfestingar alþjóðlegra fyrirtækja.

Höfundur er eigandi hjá EY, endurskoðun og ráðgjöf, og jafnframt sviðsstjóri Skatta- og lögfræðisviðs.