*

mánudagur, 27. maí 2019
Símon Þór Jónsson
11. nóvember 2018 12:31

Fyrirtækin, Árneshreppur og aðgerðasinnar

Mál Hvalárvirkjunar í Árneshreppi á Ströndum sett í alþjóðlegt samhengi.

Hvalá í Ófeigsfirði.
Aðsend mynd

Deilur þær sem staðið hafa um byggingu fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar í Árneshreppi á Ströndum hafa vart farið framhjá mörgum. Hér verður hvorki tekin afstaða til virkjunar né til framgöngu þeirra aðila sem að málinu koma, heldur er markmiðið að setja málið í alþjóðlegt samhengi. Efnið snýr að pólitík, hagfræði og lögfræði og er hagsmunahópunum yfirleitt skipt í þrennt, þ.e. fyrirtækin, ríkin og borgaraleg samfélög. Sveitarfélög eru hluti ríkisvaldsins og þar með talinn Árneshreppur.

Einhverjir gætu velt fyrir sér hvernig málefnið snertir EY, endurskoðun og ráðgjöf. EY er alþjóðlegt fyrirtæki og hjá EY á Íslandi starfar fjöldi lögfræðinga og annarra sérfræðinga, t.d. viðskiptafræðingar, hagfræðingar, verkfræðingar og tölvufræðingar, við ráðgjöf, einkum til fyrirtækja, þ.m.t. alþjóðlegra. Snýr ráðgjöfin m.a. að mögulegum fjárfestingum og starfsemi erlendra fyrirtækja á Íslandi, oft í gegnum dótturfélög, sem og að starfsemi innlendra fyrirtækja án þess að þau séu í eigu erlendra aðila. Koma þar m.a. til skoðunar ýmiss konar ívilnanir vegna fjárfestinga á ákveðnum sviðum eða svæðum, undanþágur frá ákveðnum reglum eins og skattareglum, sem og takmarkanir sem um starfsemina kunna að gilda, s.s. á sviði umhverfismála, neytendaverndar, persónuverndar, samkeppnisréttar og vinnuréttar.

Erlent eignarhald og alþjóðavæðingin

Fyrir liggur að VesturVerk, sem áformar virkjun Hvalár í Árneshreppi, er 70% í eigu HS Orku og að HS Orka er í meirihlutaeigu kanadísks félags, Innergex Renewable Energy, sem er skráð á hlutabréfamarkaði þar í landi. Innergex er alþjóðlegt fyrirtæki (e. Multinational Enterprise) með starfsemi í Kanada, Bandaríkjunum, Frakklandi og á Íslandi.

Samskipti þau sem Innergex Renewable Energy hefur átt við sveitarstjóra Árneshrepps, með óbeinum hætti í gegnum ráðandi eignarhald sitt á HS Orku og á VesturVerki, sem og greiðslur Vestur- Verks á lögmannsreikningum fyrir Árneshrepp, hafa vakið upp spurningar um áhrif hins erlenda fjárfestis á handhafa ríkisvaldsins. Þá liggur fyrir að VesturVerk dreifði bæklingum inn á heimili á Vestfjörðum þar sem kostir virkjunar eru tíundaðir. Hér er ekki sagt að þetta hafi verið óeðlilegt, né heldur að þetta hafi verið eðlilegt.

Viðhorf gagnvart alþjóðavæðingunni (e. Globalisation) hafa breyst í gegnum tíðina og eru breytileg frá einu ríki til annars. Í dag eru flest ríki í meginatriðum hlynnt erlendri fjárfestingu (e. Foreign Direct Investment) og alþjóðafyrirtækjum, en þau og borgaralegt samfélag hafa haft ákveðnar efasemdir um hvort ávinningurinn af framgöngu þeirra, einkum sá efnahagslegi, vegi upp neikvæðu afleiðingarnar. Nýlegt dæmi um neikvæðar afleiðingar er misnotkun Cambridge Analytica á persónuupplýsingum Facebook. Framan af voru þetta mikið fyrirtæki í vinnslu náttúruauðlinda og framleiðslufyrirtæki sem áttu rætur í þróuðum ríkjum sem nýttu sér veikt ríkisvald í minna þróaðri ríkjum, t.d. til að lækka launakostnað og draga úr kvöðum vegna umhverfis- og öryggissjónarmiða, en í dag hafa þjónustu- og hátæknifyrirtæki orðið meira áberandi.

Áhyggjurnar snúa einkum að því hvort áhrifamáttur alþjóðafyrirtækja sé orðinn slíkur, á grundvelli fjármagns, í gegnum pólitík, alþjóðasamtök, auglýsingar, leitarvélar á netinu, samfélagsmiðla o.þ.h., að þau stjórni í raun bæði ríkjum og borgaralegu samfélagi, þ.m.t. neytendum, þannig að hagsmunir fyrirtækjanna séu hafðir í fyrirrúmi á kostnað hagsmuna ríkja og borgaralegs samfélags.

Réttlátar reglur fyrir samfélagið

Þessi grein leggur grunninn að tveimur öðrum sem fylgja í kjölfarið. Næsta grein mun fjalla um sögulegan aðdraganda þess að lögum var breytt á þann veg að félög gátu verið sjálfstæðar lögpersónur þar sem ábyrgð hluthafa var takmörkuð við hlutafjárframlagið, þróun þessa félagaforms og hugmyndir manna um samsvörun á milli einkenna hlutafélagsins sem stofnunar og persónueinkenna siðblindingja (e. Psychopath). Að því er varðar síðastnefnda atriðið verður horft til skrifa kanadíska lagaprófessorsins Joel Bakan, í bók hans The CorporationThe Pathological Pursuit of Profit and Power.

Þriðja og síðasta greinin mun fjalla um reglusetninguna sjálfa, einkum um setningu reglna um erlendrar fjárfestingar alþjóðlegra fyrirtækja og hvernig hún hefur haft tilhneigingu til að draga taum fyrirtækjanna, þannig að ýmist er litið á lög sem hindrun eða hvata fyrir fyrirtækin til að búa til hagnað fyrir hluthafa. Færa má rök fyrir því að fyrirtækjalögfræði hafi þannig að einhverju leyti verið tekin í gíslingu af hagfræði eða markaðslögmálum ef svo má segja með neikvæðum afleiðingum fyrir samfélagið, en í því samhengi er rétt að minna á að lögfræði og þ.m.t. fyrirtækjalögfræði er ekki hagkvæmnisvísindi heldur félagsvísindi. Hagfræði er nauðsynleg svo langt sem hún nær, þ.e. í þeim tilgangi að stækka kökuna. Hagfræði er hins vegar takmörkuð þegar kemur að öðrum markmiðum samfélagsins en efnahagslegum, eins og að ná fram réttlátri skiptingu kökunnar, að vernda launþega, neytendur og náttúru, svo einhver dæmi séu tekin. Þá kemur m.a. til kasta lögfræðinnar.

Höfundur er eigandi hjá EY, endurskoðun og ráðgjöf, og jafnframt sviðsstjóri Skatta- og lögfræðisviðs. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim