Árið 2005 skrifaði John Ioannidis, prófessor í læknisfræði við Stanford-háskólann, umhugsunarverða grein með fyrirsögninni ,,Af hverju flestar niðurstöður vísindarannsókna eru rangar“.

Sérstaklega voru skoðaðar niðurstöður á sviði læknisfræði sem notið höfðu víðtækrar viðurkenningar og reynt hafði verið að endurtaka með nýjum rannsóknum. Kom í ljós að í 41% tilvika höfðu upphaflegu niðurstöðurnar verið stórlega ýktar. Áætlað hefur verið að hugsanlega sé ekki hægt að endurtaka rannsóknarniðurstöður í allt að 89% tilfella.

Hafa ber þó í huga að hér er aðallega átt við svokölluð raunvísindi en ekki félagsvísindi eða sálfræði, þar með talið svokölluð lýðheilsufræði því eðli málsins samkvæmt eru slíkar greinar í raun lítið annað en samansafn tilgáta. Fyrir áhugasama um vafasöm vísindi má benda á síðuna retractionwatch.com sem flett hefur ofan af ótal vafasömum vísindaniðurstöðum.

Aðgengi og neysla

Í umræðu um lagafrumvarp Vilhjálms Árnasonar og fleiri þingmanna um viðskiptafrelsi með áfengi hafa margir lýðheilsufræðingar og vísindamenn sprottið fram á ritvöllinn. Álit sérfræðingana eiga það sameiginlegt að boða mikinn ófarnað ef fullveðja einstaklingum verði einfaldlega treyst til þess að eiga viðskipti sín á milli með löglegar neysluvörur án milligöngu ríkisstarfsmanna.

Sérfræðingar telja margrannsakað og margsannað að aukið aðgengi þýði aukin neysla. Engu skiptir þó að einu tölfræðilegu gögnin sem hægt er að horfa til hér á landi sýni hið gagnstæða , þ.e. að sala hefur minnkað samfara auknu aðgengi. Tölfræðilegum gögnum er ekki til að dreifa erlendis frá því ríkiseinokunarverslun með áfengi hefur hvergi verið lögð niður í vestrænu lýðræðisþjóðfélagi, þar sem slíkt óyndisfyrirkomulag hefur á annað borð verið tekið upp.

Merkilegt nokk að þá gerir ríkið nánast allt sem hægt er til að auka aðgengi að áfengi, stórnotendur fá heimsent frítt og verslunum er fjölgað á hverju ári ofan í stórfjölgun vínveitingahúsa. Sömuleiðis hefur Leifsstöð verið breytt í einn áfengisauglýsinga-ranghala þar sem sérstök áhersla er lögð á að blanda saman áfengi og leikföngum auk þess sem unglingar geta afgreitt sig sjálfir á sérstöku smökkunarborði, merktu: ,,WE WANT YOU TO TASTE“.

Á hinn bóginn reynir hið opinbera að torvelda sem mest aðgengi að ólöglegum vímuefnum. Niðurstaðan er þó sú að aukning hefur orðið á fíkniefnaakstri en minnkun á ölvunarakstri . Í Hollandi og Portúgal hafa fíkniefni verið afglæpavædd og því aðgengi að mestu óheft með þeim afleiðingum að neysla hefur minnkað. Hvað segir það um orsakasamhengi aðgengis, neyslu og vandamála?

Samkvæmt vísindamönnum er bein afleiðing af aukinni neyslu, aukin vandamál. Þessi tilgáta gengur í raun út á það að neysla landsmanna sé nú þegar á ystu nöf (rétt eins og þegar leyfa átti bjórinn) og að allir landsmenn séu á mörkum þess að fá skorpulifur eða aðra áfengistengda sjúkdóma. Einn ástsælasti vísindamaður þjóðarinnar (og sá dýrasti) fann það meðal annars út að 35% þjóðarinnar væru áfengisfíklar . Samkvæmt framangreindri tilgátu væru hjón sem í dag drekka eina léttvínsflösku í viku hverri og myndu auka neyslu upp í tvær eða um 100%, að margfalda líkur á að verða baggi á samfélaginu vegna áfengisneyslu.

Sérkennileg rök

Samkvæmt tölfræðinni stendur vínandinn íbúum Vatikansins nær heldur en sá heilagi með neyslu upp á 54 lítra á ári að frádregnu messuvíni. Samkvæmt lögmálum lýðheilsufræðinga ætti lýðheilsa fólks hvergi að vera betri heldur en í Norður Kóreu þar sem neysla er 0,01 lítri á hvern íbúa (fanga). Engum hefur dottið í hug að véfengja þá fullyrðingu að aukinni neyslu hljóti alltaf að fylgja aukin vandamál eða að mælingavandi geti verið til staðar í 350.000 manna landi sem allt í einu fær 1,3 milljónir ferðamanna árlega.

Það merkilega við sérfræðingaálit er að þau eru nær undantekningalaust andstæð frelsi einstaklingsins. Þannig taldi þáverandi borgarlæknir afar vafasamt að heimila almennum verslunum að selja mjólk því mjólkin væri jú ,,ekki eins og hver önnur neysluvara“ Einnig vöruðu margir sterklega við því að minni verslanir réðu ekki við þá fjárfestingu sem fælist í mjólkurkæli og því yrðu mörg borgarhverfi og landshlutar án mjólkur. Einokunarrekstur á talsímaþjónustu var studdur rökum um tæknilegt öryggi og sama átti við um innflutning á símtækjum. Viðskiptafrelsi með landbúnaðarafurðir eru auðvitað hættulegt lýðheilsu þar sem landbúnaðarafurðir annarra þjóða eru mengaðar og sýktar. Um frelsi á öldum ljósvakans sögðu menn reyndar réttilega að ,,Frjáls útvarpsrekstur er ekki það frelsi sem sumir halda“ sem reyndist rétt en á allt öðrum forsendum en sérfróðir töldu. Nýjasta viðbótin í sérfræðiálitum er að frelsi neytenda til að velja sér bjór gæti komið niður á innlendum bjórframleiðendum að mati þeirra sjálfra. Sannast þar lögmálið um að frelsið hyglar mörgum á kostnað fárra á meðan helsið hyglar fáum á kostnað margra

Líklega birtast sérkennilegustu rökin gegn viðskiptafrelsi í minnihlutaáliti Frosta Sigurjónssonar í efnahags- og viðskiptanefnd þess efnis að með einokunarverslun verði í senn tryggt:

  1. Lægra vöruverð
  2. Betra úrval
  3. Minni verslun.

Sú vísindatilgáta þingmannsins verður framlag Íslands til Ig Nobel verðlaunanna í hagfræði