*

mánudagur, 21. janúar 2019
Erla Skúladóttir
8. júní 2018 15:01

Yfir gjána

Helstu verðmæti sprotafyrirtækja eru ekki fólgin í áþreifanlegum eigum heldur hugviti og hugverkum.

Tækniþróunarsjóður var stofnaður fyrir fimmtán árum með það að markmiði að brúa hina alræmdu nýsköpunargjá.

Náðu lengra – út í heim – með Tækniþróunarsjóði er yfirskrift vorfundar sjóðsins sem haldinn er í dag. Þar verður m.a. greint frá úthlutun 700 milljóna króna úr sjóðnum og nýtt mat á áhrifum hans kynnt.

Tækniþróunarsjóður var stofnaður fyrir fimmtán árum með það að markmiði að brúa hina alræmdu nýsköpunargjá og óhætt er að fullyrða að stuðningur hans hafi skipt sköpum fyrir fjölda íslenskra frumkvöðla og sprotafyrirtækja. Áhrifamatið gefur til kynna að styrkir sjóðsins hafi reynst forsenda fyrir rekstri nýsköpunarfyrirtækja sem standa nú sum hver framarlega á sviði viðskipta, vöruþróunar og rannsókna í íslensku atvinnulífi.

Niðurstaða matsins er að styrkirnir hafi stuðlað að áþreifanlegum auði í formi aukinnar þekkingar, sjálfbærni í nýsköpun, fjölgun starfa til lengri og skemmri tíma, auknum útflutningi, eflingu tengslanets auk bætts aðgengis að öðru fjármagni. Sem er virkilega jákvætt. En það þarf fleira en fjárstuðning opinberra sjóða til þess að skila frumkvöðlum yfir gjána. Þeir þurfa að búa yfir ómældri þrautseigju, útsjónarsemi og dugnaði – og eiga gott faglegt bakland.

Helstu verðmæti sprotafyrirtækja eru ekki fólgin í áþreifanlegum eigum heldur hugviti og hugverkum sem er nauðsynlegt að vernda og nýta á markvissan hátt, t.d. með skráningu vörumerkis, einkaleyfis eða varðveislu atvinnuleyndarmáls. Það getur reynst dýrkeypt að huga ekki að hugverkaréttindum og jafnvel rausnarlegustu styrkir Tækniþróunarsjóðs eru fljótt foknir út í veður og vind ef rétturinn er ekki nægilega tryggður. Það er áskorun fyrir þá sem munu vinna að heildstæðri nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, sem nú er í undirbúningi, að tryggja að framtíðarsýn hugverkastefnu stjórnvalda verði að veruleika og frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum bjóðist öflugur opinber stuðningur við vernd hugverka og öflun réttinda. Skref í þessa átt er vissulega stigið með sérstökum styrkjum Tækniþróunarsjóðs til undirbúnings einkaleyfaumsókna, en fimmtán slíkir styrkir hafa nú verið veittir.

Höfundur er Erla Skúladóttir, sérfræðingur í hugverkarétti og rekstri sprotafyrirtækja. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.