Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir hefur náð undraverðum árangri frá því að hún gaf út sína fyrstu smáskífu vorið 2020. Síðasta sunnudag hlaut hún Grammy-verðlaun í flokki hefðbundinnar popptónlistar fyrir plötuna Bewitched sem kom út síðasta haust. Meðal hinna fimm sem tilefnd voru í sama flokki var Bruce Springsteen.

Eftirfarandi umfjöllun um Laufyju birtist fyrst í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsri verslun, sem kom út á milli jóla og nýárs.

Laufey flutti lagið From the Start á Grammy verðlaunarhátíðinni á sunnudaginn.
© epa (epa)

Slíkar eru vinsældir Laufeyjar að hún var sá tónlistarmaður í flokki djasstónlistar sem var með flestar spilanir á Spotify árið 2022. Þá sló Bewitched, önnur breiðskífa Laufeyjar, met Lady Gaga og Tony Bennett yfir flestar hlustanir á útgáfudegi en alls var plötunni streymt 5,7 milljónum talsins þann 9. september síðastliðinn.

Fyrri breiðskífan hennar, Everything I Know About Love, sem kom út í ágúst 2022 var ekki síður vinsæl og rataði m.a. í efsta sæti á lista Billboard yfir „Alternative New Artist Album“. Lagið Valentine, sem er á þeirri plötu, náði einnig efsta sætinu á lista Spotify yfir vinsæl djasslög. Laufey gaf einnig út EP-plötuna Typical of Me í apríl 2021 og var valin besti nýi listamaðurinn í djass og blús á Íslensku tónlistarverðlaununum vegna hennar það ár.

Í dag er Laufey sá íslenski tónlistarmaður með flestar mánaðarlegar hlustanir á tónlistarveitunni Spotify, og var um miðjan desembermánuð með jafnmarga hlustendur og Kaleo og Of Monsters and Men til samans, sem má að hluta rekja til jólaumferðar á streymisveitunni. Í byrjun desembermánaðar seldust upp allir miðar á tónleikaferðalagi Laufeyjar um Bandaríkin í apríl og maí næstkomandi, og má þar m.a. nefna tvenna tónleika í Radio City Music Hall í New York sem tekur um 6 þúsund áhorfendur.

Laufey er með um 20 milljónir mánaðarlega hlustendur á Spotify um þessar mundir, fleiri en nokkur annar íslenskur tónlistarmaður.
© Eggert Jóhannesson (M mynd/Eggert Jóhannesson)

Tónlist Laufeyjar má kalla blöndu af djassi og klassískri tónlist með poppívafi. Erlendir fjölmiðlar hafa í umfjöllun sinni lýst því að hún eigi stóran þátt í auknum áhuga yngri kynslóðanna á djassi.

Eflaust mætti rekja þann árangur Laufeyar til góðrar miðlunar efnis á samfélagsmiðlum. Laufey er í dag með fleiri en tvær milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlinum Instagram og vakti það athygli þegar hún tók á dögunum fram úr tónlistarkonunni Björk í fjölda fylgjenda.

Kemur úr mikilli tónlistarfjölskyldu

Laufey, sem er 24 ára gömul, er tónlistarkona í orðsins fyllstu merkingu. Hún hefur vakið mikla athygli með sinni einstöku djúpu rödd og lagasmíði en einnig hefur hún mikla þekkingu og hæfileika á hljóðfæraleik. Hún byrjaði að læra á píanó þegar hún var aðeins fjögurra ára gömul, fjórum árum síðar var hún einnig farin að læra á selló. Hún var 19 ára gömul þegar hún sótti um í Berklee tónlistarháskólanum í Boston og fékk þar fullan styrk til þess að taka bachelor-gráðu á selló. Laufey lét þar ekki staðar numið en hún spilar einnig á gítar.

Tónlistaráhuga Laufeyjar má að stórum hluta rekja til móðurfjölskyldu hennar. Lín Wei, móðir Laufeyjar, er fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og amma hennar og afi voru píanó- og fiðluprófessorar í Beijing. Tvíburasystir Laufeyjar, Júnía Lín, valdi að leika á klassíska fiðlu en hún starfar í dag sem samfélagsmiðlaráðgjafi hjá Universal Music Group í Bretlandi. Júnía Lín starfar náið með Laufeyju sem listrænn stjórnandi og annast einnig kynningarmál hennar.

Laufey var á dögunum tilnefnd til Grammy-verðlauna en tilkynnt verður um sigurvera í byrjun febrúar.
Laufey var á dögunum tilnefnd til Grammy-verðlauna en tilkynnt verður um sigurvera í byrjun febrúar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Laufey hefur hins vegar rakið djassáhugann til föður síns, Jóns Þ. Sigurgeirssonar, sem starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands. Jón, sem sat í framkvæmdanefndinni um afnám gjaldeyrishafta, starfaði einnig hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington um átta ára skeið og vörðu systurnar því miklum tíma í höfuðborg Bandaríkjanna. Laufey rifjar reglulega upp að faðir sinn hafi iðulega hlustað á djass, þar á meðal plötur Ellu Fitzgerald og Billie Holiday en sú fyrrnefnda er uppáhaldstónlistarmaður Laufeyjar.

Hún hefur einnig nefnt Chet Baker sem einn helsta áhrifavald sinnar tónlistar ásamt samtímalistamönnunum Taylor Swift, Adele og Noruh Jones sem veitt hafa henni hvatningu og listrænan innblástur. Sú síðastnefnda, sem er hvað þekktust fyrir fyrstu plötuna sína Come Away with Me, er meðal þeirra tónlistarmanna með bakgrunn í djassi sem hafa náð mestum frama á síðari árum. Það var því vel við hæfi að Norah Jones og Laufey gáfu saman út smáskífu í aðdraganda þessara jóla með lögunum Have Yourself a Merry Little Christmas og Better Than Snow en seinna lagið sömdu þær saman.

Sama stelpan og í söngtímunum

Á framhaldsskólaaldri sótti Laufey bæði sellónám og djasssöngnám við Menntaskólann í tónlist (MÍT). Í rytmíska söngnáminu var hún undir handleiðslu Guðlaugar Drafnar Ólafsdóttur söngkonu um um það bil tveggja ára skeið. Guðlaug, sem er sjálf menntuð á sviði djasstónlistar, segir að það hafi ekki leynt sér að Laufey ætti framtíðina fyrir sér í tónlist.

„Þetta voru bara tónleikar í hverri viku, að fá að hlusta á hana. Það var frábært að hafa Laufeyju í tímum,“ segir Guðlaug. Hún segir að Íslendingurinn í sér hafi ekki hugsað það svo langt að Laufey gæti náð jafn ótrúlegum árangri og hún hefur þegar gert.

„En hún hefur ávallt haft alla burði í að ná langt. Tónlistin er henni bara þannig í blóð borin að maður hugsaði aldrei neitt annað en að hún yrði tónlistarkona, hvort sem hún yrði þetta risanafn eða „venjuleg“ tónlistarkona. Maður bjóst hins vegar alltaf við því að hún myndi fljótlega ná langt,“ segir Guðlaug og bætir við að hún efist um að sá dagur hafi liðið sem Laufey hafi ekki verið að spila á hljóðfæri, syngja eða semja lög. „Færnin sem hún býr yfir kemur ekkert á einni nóttu.“

Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir
Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Guðlaug segir Laufeyju hafa mikla næmni fyrir allri tónmyndun og smáatriðum hvað það varðar. Laufey sé með það sem kallast fullkomið tóneyra. Þá búi Laufey yfir yfirgripsmikilli þekkingu á tónlist sem sennilega megi rekja til annars vegar klassísku tónlistarinnar og djassins sem hún hlustaði á frá unga aldri og hins vegar allra hljóðfæranna sem hún spilar á. Guðlaug segir Laufeyju því hafa mörg tromp á hendi.

„Mér finnst líka svo frábært að hvort sem hún er í viðtölum, á sviðinu eða annars staðar, þá sér maður alltaf sömu stelpuna og var í söngtímunum – glöð, jákvæð og elskaði allt einhvern veginn. Það er ekkert yfirborðskennt við hana.“

Boðberi djasstónlistar og öflug „business-kona“

Á sínum yngri árum sótti Laufey einnig tíma hjá Kristjönu Stefánsdóttur, einni fremstu djasssöngkonu landsins. Spurð hvort hún hafi átt von á að Laufey myndi ná jafnlangt í tónlistarheiminum og raun ber vitni, segir Kristjana að hæfileikar hennar hafi í það minnsta ekki leynt sér.

„Laufey var kornung þegar hún mætti í tíma hjá mér. Ég vissi um leið og hún opnaði munninn að hún væri frábær tónlistarkona. Hún er með fádæma raddfegurð – hún var strax með svona óvanalega dökkan „smokey“ djasslit á röddinni á þessum unga aldri. Ég gerði mér fullkomlega grein fyrir að Laufey ætti eftir að fara langt en þetta er eitthvað sem ég held að engan hafi órað fyrir,“ segir Kristjana og bætir við að enginn annar íslenskur djasstónlistarmaður hafi flogið jafn hátt.

Kristjana Stefánsdóttir
Kristjana Stefánsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Kristjana segir Laufeyju vera vandaða tónlistarkonu með algjörlega sinn eigin stíl. Hún dansi á fallegri brú klassískrar tónlistar, djass og popps með smá söngleikjalínu og lágstemmdum „acoustic“ blæ. Gaman sé að fylgjast með umræðum um hvort flokka megi Laufeyju sem djasstónlistarkonu þar sem hún fylgi sínum eigin leiðum.

Það fari þó ekki á milli mála að Laufey sé boðberi djasstónlistar og er að mati Kristjönu búin að koma djasstónlistinni aftur á kortið. Að fylgjast með þúsundum unglinga á tónleikum Laufeyjar tryllast yfir gömlum djassballöðum er mögnuð upplifun að sögn Kristjönu.

„Það er búið að vera ótrúlega gaman að fylgjast með henni. Það er eiginlega lygilegt hvað hún hefur flogið hátt á stuttum tíma en á sama tíma algjörlega stórkostlegt, maður fyllist stolti og gleði. Ég samgleðst henni svo innilega yfir þessari velgengni.“

Spurð hvort hún hafi fundið fyrir auknum áhuga á djasstónlist hér á landi, svarar Kristjana að það sé heilt yfir fastur hópur sem mæti á djasshátíðir og -tónleika. Hún telur hins vegar að velgengni Laufeyjar verði til þess að aðrir djass-söngvarar fái byr undir báða vængi. Aðspurð bendir Kristjana á Rebekku Blöndal sem einn af efnilegustu djasstónlistarmönnum landsins.

Kristjana hrósar Laufeyju ekki aðeins fyrir tónlistina hennar heldur einnig fyrir að halda vel utan um viðskiptahliðina með teyminu sínu. Hún nefnir meðal annars góðan árangur í miðlun efnis til almennings og ákvarðana í tengslum við útgáfu- og dreifingarsamninga. „Hún er bara „business-kona“. Hún samdi ekki af sér og á allan réttinn sjálf.“

Útgáfuréttindin verðmæt

Fjöldi mánaðarlegra hlustenda Laufeyjar á Spotify er í dag í kringum 20 milljónir talsins. Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), segist ekki muna eftir öðrum eins veldisvexti hjá nokkrum öðrum íslenskum tónlistarmanni. Varðandi næstu skref Laufeyjar telur hann henni alla vegi færa og að hún sé á leiðinni að verða „megastjarna“.

„Það er ekki alltaf sem streymistölur sem þessar skila sér í beinni línu í það sem við köllum þátttöku aðdáenda, þ.e. hvort aðdáendur mæti á tónleika, kaupi vörur og annað slíkt. Í tilviki Laufeyjar þá virðist vera nokkuð skýr fylgni þarna á milli,“ segir Sigtryggur og vísar á hið uppselda tónleikaferðalag hennar í Bandaríkjunum næsta vor.

„Við bárum gæfu til að geta hjálpað henni aðeins í byrjun með markaðs- og ferðastyrki. Það er gaman fyrir okkur að geta stutt við verkefni sem ná góðu flugi,“ segir Sigtryggur en ÚTÓN umsýslar svokallaðan útflutningssjóð fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Hann áréttar að hann telji velgengni Laufeyjar vera alveg „self-made“.

Sigtryggur Baldursson.
© Árni Sæberg (M Mynd/Árni Sæberg)

Sigtryggur lýsir Laufeyju sem náttúrubarni og frumkvöðli þegar kemur að samfélagsmiðlum og það hafi til að mynda nýst henni vel í að koma sér á framfæri. Í byrjun Covid-faraldursins byrjaði hún að búa til litlar klippur af sér að syngja bandarísk djasslög, spila á selló og fleira. Það leiddi af sér að hún var komin með stóran hóp fylgjenda á samfélagsmiðlum áður en hún samdi við umboðsskrifstofuna Foundations Artist Management fyrir um 2-3 árum síðan.

„Hún er með þétt og skemmtilegt teymi í kringum sig,“ segir Sigtryggur og nefnir þar m.a. umboðsmanninn hennar Max Gredinger og systur hennar Júníu sem er listrænn stjórnandi. „Við höfum lengi talað um mikilvægi þess að búa til teymi í kringum sig. Við sjáum að flest verkefnin sem ná mjög langt í tónlistarbransanum eru yfirleitt með sterk teymi á bak við sig. Þetta eru sjaldnast einmana úlfar.“

Árið 2021 gerði Laufey plötusamning við AWAL (Artists Without a Label), sem býður völdum upprennandi tónlistarmönnum þjónustu við dreifingu og markaðssetningu. AWAL, sem Sony Music keypti fyrir tveimur árum síðan, leitast eftir að bjóða tónlistarmönnum sínum samninga sem fara ekki fram á að þeir afsali sér réttinum sínum. Fyrir vikið heldur Laufey áfram á útgáfurétti (einnig kallaður master-réttur) laga sinna, sem er ekki sjálfsagt í tónlistarheiminum.

Sigtryggur bendir á að master-rétturinn sé það sem stóru alþjóðlegu útgáfufyrirtækin hafa reynt að kaupa upp í stórum stíl á síðustu árum – oft fyrir himinháar fjárhæðir. Útgáfurétturinn er sá réttur sem streymisveitur á borð við Spotify greiða rétthöfum tónlistar hvað mest fyrir á hvert streymi eða niðurhal viðkomandi tónlistar. Áhugavert verði að fylgjast með hvað Laufey gerir í þessum efnum á komandi árum og hvort hún ákveði að framselja sín master-réttindi eða ekki.

Sigtryggur, sem er m.a. upphafsmaður Bogomil Font og milljónamæringanna og hefur auk þess spilað í fjölda hljómsveita líkt og Sykurmolunum, segir að hann hafi alveg eins átt von á að Laufeyju myndi vegna vel.

„Hún tikkar í svo mörg box. Sem dæmi fer tónlistin hennar inn á marga ólíka lagalista. Laufey hefur ákveðið sjálfsöryggi sem flytjandi sem er mjög sjarmerandi og fáir á hennar aldri hafa að upplagi. Það var strax nokkuð augljóst að hún hefði ákveðið stjörnuefni. Hún hefur rosalega flotta rödd en er líka ljómandi höfundur. Hún myndast einnig vel ef svo mætti að orði komast. Hún hefur þetta allt,“ segir Sigtryggur. Þá telur hann Laufeyju, verandi hálfíslensk og hálfkínversk, vera með flottan fjölmenningartón sem stuðlar að stærra mengi hlustenda.

Laufey gaf út sína fyrstu breiðskífu sumarið 2022.
Laufey gaf út sína fyrstu breiðskífu sumarið 2022.
© Hákon Pálsson (M Mynd)