Erlendir markaðir hafa þróast misjafnlega á þriðja fjórðungi og má gera ráð fyrir að á heildina litið hafi virði fjárfestinga Íslendinga lækkað þegar um 2/3 hluta fjórðungsins er lokið, segir greiningardeild Glitnis.

?Þannig hefur heimsvísitala Morgan Stanley hækkað einungis um 1,35% á fjórðungnum. Talsverðs taugatitrings gætir á erlendum hlutabréfamörkuðum sökum aukinnar spennu í Miðausturlöndum en þó gera flestir sérfræðingar ráð fyrir hækkunum á hlutabréfum á öllum helstu mörkuðum erlendis það sem eftir lifir árs," segir greningardeildin.

Sé ávöxtunin mæld í krónum, hefur hækkandi gengi krónu lækkað virði erlendra fjárfestinga á þriðja ársfjórðungi. ?Þannig hefur gengiskrossinn USD/ISK lækkað úr 75,6 í byrjun fjórðungsins í 70,0 þegar þetta er ritað. Þannig hefur gengisvísitalan lækkað úr 132,8 í byrjun fjórðungsins í 123,4 þegar þetta er ritað," segir greiningardeildin.

Hún segir að ef tekið er dæmi um fjárfestingu þar sem fjárfest er í sjóði sem tekur mið af heimsvísitölu fjárfestingabankans Morgan Stanley þá nemur lækkunin um 6,1% í krónum talið það sem af er fjórðungnum.

"Talsvert mörg fjárfestingarfélög sem skráð eru hérlendis hafa fjárfest í auknum mæli á erlendum mörkuðum, og má í því samhengi nefna FL Group og Atorku. Ef fram fer sem horfir, má gera ráð fyrir tapi af erlendum hlutabréfafjárfestingum á 3. fjórðungi en á móti vegur að Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur hækkað um 8,7% í fjórðungnum," segir greiningardeildin.