ORF Líftækni var stofnað árið 2001 með það í huga að framleiða sérvirk prótein með því að nýta fræ byggplöntunnar sem smiðju próteinanna. Stofnendur fyrirtækisins voru þeir Björn Lárus Örvar, Einar Mäntylä, og Júlíus Kristinsson.

Það tók um 5-6 ár fyrir fyrirtækið að þróa kerfið og árið 2007 fóru fyrstu vörur ORF Líftækni á markað. Það voru háhreinsaðir vaxtarþættir sem notaðir voru í rannsóknir af vísindamönnum sem gerðu rannsóknir á frumum.

Á næstu árum setti fyrirtækið á fót húðvörumerkið BIOEFFECT árið 2009 en er í dag rekið sem sjálfstætt fyrirtæki. ORF Líftækni heldur hins vegar áfram að selja BIOEFFECT vaxtarþætti sína sem byrjað var að framleiða árið 2009.

Árið 2008 opnaði fyrirtækið 2000 fermetra hátæknigróðurhús í Grindavík og vígði þá Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra gróðurhúsið með því að skera fyrsta byggið við opnunarathöfn.

ORF Líftækni var þá orðið stærsta fyrirtækið á sínu sviði í Evrópu og lagði mikla áherslu á markaðs- og sölumál. Fyrirtækið hafði sama ár hlotið Nýsköpunarverðlaun Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs.

Árið 2019 tók ORF Líftækni næsta skref sem var að færa sig yfir í vistkjötmarkaðinn. Fyrirtækið fékk 2,5 milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu og á dögunum bauð ORF Líftækni, ásamt ástralska nýsköpunarfyrirtækinu Vow, upp á fyrstu vistkjötssmökkun í Evrópu við höfuðstöðvar ORF Líftækni við Víkurhvarf.

Að þróa og selja framtíðina

Berglind Rán Ólafsdóttir, forstýra ORF líftækni, segir tilganginn með framleiðslu vistkjöts vera að búa til kjöt sem losi minna en hefðbundin kjötframleiðsla. Þróunin er ekki ný af nálinni en árið 2013 var fyrsti vistkjötsborgari kynntur til leiks sem kostaði þó um 330 þúsund dali.

„Nú erum við farin frá því að þróa vöruna yfir í það að skala framleiðsluna upp þannig við förum bráðum að sjá þetta á veitingastöðum og í búðum. Singapúr var fyrsta þjóðin til að veita markaðsleyfi fyrir vistkjöt og svo veittu bandarísk yfirvöld markaðsleyfi fyrir tvö fyrirtæki á síðasta ári.“

„Vistkjötsframleiðslan losar ekki bara minna, heldur þarf hún miklu minna land og miklu minna vatn.“

Berglind segir að meginástæða þess að Singapúr hafi verið svo framarlega í vistkjöti sé vegna markmiðs stjórnvalda um að 30% af öllum mat sem neyddur er í Singapúr komi frá innlendri framleiðslu fyrir árið 2030. Aðeins 1% af landsvæði Singapúr er notað í landbúnað.

ORF Líftækni ræktar byggplöntur sem gefa frá sér prótein.
© BIG (VB MYND/BIG)

„Vistkjötsframleiðslan losar ekki bara minna, heldur þarf hún miklu minna land og miklu minna vatn. Þess vegna er þetta raunverulegur möguleiki fyrir þjóðir eins og Singapúr.“

Kjötneysla á heimsvísu hefur stóraukist undanfarna áratugi en framleiðsla vistkjöts er hins vegar bæði stöðug og fyrirsjáanleg. Bændur um heim allan séu til að mynda upp á náð og miskunn veður og geta átök, eins og stríðið í Úkraínu, haft veruleg áhrif á aðfangakeðjur heimsins.

Annar valmöguleiki sem hefur verið að ryðja sér til rúms, sérstaklega í Bandaríkjunum, hefur verið plöntukjöt. Fyrirtækið Impossible Foods kynnti meðal annars fyrsta Impossible Burger-hamborgarann árið 2016 sem unninn var úr sojapróteini, kókosolíu, gerþykkni, vítamínum og öðru.

„Það er í rauninni betra að borða plöntur fyrir loftslagið en það eru bara ekki það margir sem kaupa þær vörur í þeim mæli sem þarf til að hafa áhrif á losun. Fólk saknar líka oft kjötbragðsins og hafa því sum fyrirtæki tekið upp á því að framleiða fitufrumur sem blandast saman í plöntuvöruna til að fá þetta safaríka kjötbragð,“ segir Berglind og bætir neytendur munu þá geta valið hvort þeir vilji plöntuborgara, eða plöntuborgara með vistfitu.

Gróðurhús ORF Líftækni í Grindavík var vígt árið 2008 en eyðilagðist í jarðskjálftunum á síðasta ári.

Það hefur reynst mikil vinna fyrir vísindamenn að þróa vistkjöt en það verður einnig áskorun að sannfæra fólk um að neyta þess. „Breytingar eru alltaf umdeildar og sumir bara vilja ekki sjá þetta. Aðrir stilla þessu upp til höfuðs hefðbundnum landbúnaði en það er ekki rétt. Þetta er bara annar valkostur og svo eru bændur á fullu að gera sína framleiðslu vistvænni líka,“ segir Berglind.

Hamfarir og ný tækifæri

ORF Líftækni var vel í stakk búið þegar skjálftahrinan byrjaði í nóvember á síðasta ári. Það hafi alltaf verið stefna fyrirtækisins að eiga umframmagn því um sé að ræða lifandi plöntur og segir Berglind að það geti alltaf komið upp stormar og annað.

Gróðurhúsið var hins vegar staðsett beint á sprungusvæðinu og varð fyrir miklu tjóni í jarðskjálftunum í fyrra. Teymi fyrirtækisins náðu þó að bjarga bæði útsáningarfræjum og uppskornum fræjum.

„Þegar starfsfólk kom til að sækja fræin mættu þau brotnar rúður og sprungur í gólfinu. Plönturnar þar voru með vatn fyrir fyrsta og annan daginn en við fengum aðeins einn og hálfan tíma til að fylla á kerin.“

Starfsemin í Grindavík einblíndi aðallega á að þróa ný afbrigði en 95% af framleiðsluræktun ORF Líftækni fer fram í Kanada.

„Altjónið á húsinu er núna staðfest og erum við nú í staðsetningarvali fyrir nýtt hús. Við stefnum á að vera komin með nýtt gróðurhús á þessu ári en á meðan erum við með tímabundna aðstöðu sem hýsir þróunarvinnuna.“

Berglind horfir bæði björtum augum á framtíð nýs gróðurhúss sem og framtíð fyrirtækisins. Ákveðið verður í næsta mánuði hvar nýja gróðurhúsið verði staðsett og heldur þróunarvinna ORF Líftækni áfram.

„Núna er mikill fókus á vistkjötið en eitt af því sem er svo skemmtilegt og áhugavert við þetta bygg er að það er hægt að framleiða alls konar prótein í því og við erum að skoða ýmsa möguleika,“ segir Berglind.