Hagnaður bandaríska fjárfestingabankans JP Morgan Chase dróst saman um 50% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, eftir að bankinn þurfti að niðurfæra eignir fyrir 5,1 milljarða Bandaríkjadala, meðal annars vegna lána í tengslum við skuldsettar yfirtökur og fasteignatryggða skuldabréfavafninga.

Afkoma bankans var í samræmi við meðalspá greinenda og hækkaði gengi bréfa í félaginu um 2% þegar markaður opnuðu í morgun.

Samtals nam hagnaður bankans 2,37 milljarða dala, eða 68 sent á hlut, borið saman við 4,79 milljarða dala, eða 1,34 dali á hlut, á sama tímabili fyrir ári.

Tekjur fjárfestingabankans drógust einnig saman um 11% og námu 16,89 milljörðum dala. Arðsemi eiginfjárs – mikilvægur mælikvarði á hagnað fyrir fjármálafyrirtæki – lækkaði í 8%, úr 17% fyrir ári síðan.

Af þeim 5,1 milljörðum dala sem bankinn hyggst afskrifa hjá sér, eru 2,5 milljarðar dala settir til hliðar til mæta væntanlegu tapi vegna neyslulána.

Til viðbótar við afskriftir bankans þá innihélt uppgjör JP Morgan einnig hagnað upp á 1,5 milljarða fyrir skatta vegna umsýslu og þóknunargjalda í tengslum við frumútboð kreditkortafyrirtækisins Vísa í síðasta mánuði.

Fram kom í tilkynningu sem stjórnarformaður og forstjóri JP Morgan, Jamie Dimon, sendi frá sér að horfur á þessu ári – og jafnvel lengra fram í tímann – væru ekki góðar.

Hann segist búast við því að „efnahagsumhverfið verði áfram dauft og fjármagnsmarkaði verði enn undir þrýstingi”.