Hagvagnar og Kynnisferðir voru lægstbjóðendur í útboði á akstri strætisvagna fyrir Strætó bs. Aksturinn var boðinn út  til fjögurra ára og hefst akstur í lok ágúst 2010. Alls er um að ræða akstur 35 strætisvagna og 119 þúsund aksturstíma á ári hverju. Andvirði samningsins er 987 milljónir kr. á ári eða tæpir fjórir milljarðar.

Alls bárust tilboð frá sjö aðilum og ákvað stjórn Strætó bs. á fundi sínum þann 17. mars sl. að ganga til samninga við Hagvagna og Kynnisferðir. Þeim samningaviðræðum er ekki lokið.

„Strætó bs. lagði í útboð í skugga kreppunnar sem, eins og alþjóð veit, hefur valdið gríðarlegum hækkunum á öllum aðföngum okkar.  Því er það ánægjuleg niðurstaða að við fáum hagstæð boð þrátt fyrir auknar kröfur um þjónustu og gæði,“ er haft eftir Reyni Jónssyni framkvæmdastjóra Strætó bs. í tilkynningu.

„Öllum aðalmarkmiðum útboðsins var náð og stjórnin gerði skynsamlega í því að setja aksturinn í útboð á þessum tímapunkti þrátt fyrir miklar efasemdaraddir um að slíkt væri heppilegt á þessum tíma,“ er haft eftir Jórunni Frímannsdóttur formanni stjórnar Strætó bs.