Menntatæknifyrirtækið Evolytes hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár en fyrirtækið býður upp á stærðfræðinámskerfi sem sameinar námsbók, námsleik og upplýsingakerfi fyrir kennara þar sem gagnadrifin greining er nýtt til þess að veita börnum einstaklingsmiðað námsefni í rauntíma.

Fyrirtækið var stofnað árið 2017 af þeim Írisi E. Gísladóttur og Mathieu G. Skúlasyni.

„Þessi nálgun kemur í rauninni út úr rannsóknum sem við vorum að gera við Aperio námskerfið í Háskólanum í Reykjavík 2014-17, þannig það eru tíu ár frá því að þær hófust, þar sem var verið að sameina tölvunarfræði og sálfræði og svo síðar meir kennslufræðina líka,“ segir Íris en hún er rekstrarstjóri Evolytes á Íslandi.

Grafið eftir fjármagni

Ástæðan fyrir því að þau ákváðu að fara sérstaklega í stærðfræði nám á yngsta stigi hafi meðal annars verið að fjöldi lausna er til á eldra stigi, þar sem hin ýmsu vandamál hafa komið fram. Við rannsóknir sínar hafi þau þó komist að því að vandamálin eigi uppruna sinn fyrr, einhvers staðar hafi börn orðið eftir og í kjölfarið hafi verið byggt ofan á óstöðugan grunn.

Mathieu G. Skúlason og Íris E. Gísladóttir, stofnendur Evolytes.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Það er svona okkar markmið að breyta því hvernig börn læra, það er að segja að ýta undir þennan náttúrulega áhugahvata og reyna að viðhalda honum lengur.“

Fyrirtækið lauk 70 milljóna króna hlutafjáraukningu, sem leidd var af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins í lok árs 2021 en áður höfðu þau fengið bæði styrkina Sprota og Vöxt frá Tækniþróunarsjóði, sem Íris segir raunar hafa gert þeim kleift að búa námskerfið til.

„Við fengum ótrúlega góð við brögð frá skólakerfinu sem kom okkur á óvart. Það var búið að ráðleggja okkur gegn því að fara inn í skólakerfið þar sem skólarnir hafa nánast ekkert fjármagn til námsgagnakaupa utan þess sem ríkið veitir. Það má í rauninni segja að það er bara verið að grafa eftir fjármagni því kennarar vilja svo ólmir fá svona tól því að það virkar mjög vel inn í kennslustofuna.“

Jöfnunartólið í hættu

Mikill skortur sé þó á fjármagni innan skólanna og að sögn Írisar má segja að algjör ríkisrekin einokun ríki á námsgagnamarkaði. Menntamálastofnun sér samkvæmt lögum um að sjá öllum grunnskólanemendum fyrir námsgögnum í samræmi við að alnámskrá og fara til þess verkefnis 380 milljónir á ári. Þar fyrir utan fái sveitarfélögin, sem sjá um almennan rekstur skóla, aðeins 1.500 krónur á nemanda í gegnum Námsgagnasjóð.

Þrátt fyrir að ríkið eigi að sjá um námsgögnin hafa mörg sveitarfélög fundið sig knúin til þess að grípa inn í, þó mismikið.

„Það er rosalega vont að horfa upp á þessa þróun vegna þess að þá eru börn með misjafnan aðgang að námsefni og hvernig kennslu þau fá miðað við hvar þau eru fædd, og það er ekki það sem við viljum sjá í íslensku samfélagi. Skólakerfið hefur verið þetta jöfnunartól en að öllu óbreyttu er líklegt að svo verði ekki til lengdar,“ segir Íris.

„Það má alveg deila um það hvort við munum nokkurn tímann, með þessu fyrirkomulagi og þessu fjármagni, þó að það yrði tvöfaldað eða þrefaldað, virkilega geta staðið að framúrskarandi námefnisgerð í þessu formi.“

Evolytes býður upp á stærðfræðinámskerfi sem sameinar námsbók, námsleik og upplýsingakerfi fyrir kennara þar sem gagnadrifin greining er nýtt til þess að veita börnum einstaklingsmiðað námsefni í rauntíma.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Standa varla undir sér

Hindranirnar sem einkafyrirtæki í menntatækni standa frammi fyrir séu þá kerfislægar. Skortur á fjármagni er stór þáttur en nær ómögulegt sé fyrir fyrirtæki sem vilja koma með lausnir að afla sér tekna á Íslandi. Íris, sem kom meðal annars að stofnun Samtaka menntatæknifyrirtækja innan Samtakaiðnaðarins, telur að í hið minnsta eitt til tvö fyrirtæki fari á hausinn á ári vegna þessa, jafnvel áður en að þau ná að leggja af stað í sinni vegferð.

Sjálf hefur hún fengið að heyra að hún sé eiginhagsmunasinni þegar hún hefur talað fyrir þessum málum, sem sé fjarri sannleikanum. Fyrirtækin séu fyrst og fremst að þessu því þau vilji bæta námsárangur barna og framtíð skólakerfisins.

„Ef mig langaði til þess að verða rík þá hefði ég valið mér eitthvað annað til að gera en að vera í menntatækni á Íslandi. Eins og er, ef að kerfið breytist ekki, þá gæti ég ekki mælt með þessari vegferð fyrir aðra,“ segir Íris.

„Ég get alveg sagt það að þróunin á okkar vöru hafi kostað meira en ársframlag Menntamálastofnunar. Það sem hið íslenska skólakerfi hefur greitt fyrir hana er einungis brotabrot af kostnaði við þróun þess, enda vissum við alveg að þetta myndi ekki standa undir sér hér og við erum þar af leiðandi á alþjóðlegum markaði og þannig náum við að skapa fyrirtækinu rekstrargrundvöll.“

Erlendir nemendur ná lengra

Utan Íslands er námskerfi Evolytes selt í fjórum heimsálf um á helstu tungumálum, nú síðast hafi þau byrjað að inn leiða kerfið á fátækari svæðum á Indlandi.

Munurinn á milli stöðunnar hér á landi og stöðunnar erlendis, til að mynda í Evrópu, felist í því að eiginlega öll samanburðarríki Íslands séu með námsgagnakaup á opnum og samkeppnishæfum markaði auk þess sem hærra hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins fari til námsefnisgerðar. Þar séu börn einnig komin lengra en hér á landi, meðal annars í svokölluð um STEM-greinum.

„Þá spyr maður sig, höfum við jöfn tækifæri í að mennta okkur í STEM-greinum ef við höf um áhuga? Það er fullt af fólki sem langar að læra eitthvað en stenst ekki inntökuskilyrði eða fellur út af því að það hefur ekki grunn til þess að standast þær kröfur sem eru gerðar í náminu,“ segir Íris.

„Maður horfir ár eftir ár á versnandi niðurstöður úr alþjóðakönnunum og það má deila um hvort það sé eitthvað sem við viljum elta, en ég sé ekki afhverju íslenskir nemendur ættu ekki að geta staðist sömu kröfur og börn erlendis. Það er náttúrulega ekki gott fyrir íslenskt samfélag og framtíðar hagsæld landsins ef að við erum að horfa upp á versn andi námsgetu nemenda.“

Endalausir plástrar ekki lausnin

Nauðsynlegt sé að taka ákvörðun til framtíðar í málaflokknum og takast á við skyldu námið þannig að það veki raunverulegan áhuga hjá nemendum til þess að læra. Breytingar gætu leitt til sparnaðar bæði í skóla kerfinu og samfélaginu í heild og leitt til aukinnar verðmætasköpunar.

„Það þarf bara að byrja á byrjuninni. Við erum alltaf með hugarfarið „þetta reddast“ og við erum rosalega flink sem þjóð að reyna alltaf að finna plástra á blæðandi sár en ekki að reyna að finna orsökina.“

Staðan sé þó ekki ný af nálinni en núverandi fyrirkomulag hafi lítið breyst frá því að fyrstu lög um ríkisútgáfu voru sett árið 1936. Svo virðist sem það sé ákveðin hræðsla að ef ríkið tæki ákvörðun um breytt fyrirkomulag í námsgagnagerð og útgáfu yrðu ekki til námsgögn hér á landi. Reynsla annarra landa sé hinsvegar gerólík.

„Stórar breytingar og sérstaklega svona stórar samfélagsbreytingar sem snerta svo marga beint mæta alltaf andstöðu sama hversu góðar þær eru – það að konur fengu kosningarétt mætti rosalega mikilli andstöðu á sínum tíma til dæmis. En það er bara spurning hvort við viljum breytingar. Þetta er hægt og það er hægt að snúa þessu við á innan við tíu árum,“ segir Íris. Sjálf heldur hún fast í vonina.

„Ég vil sjá að Ísland verði fremst í heimi þegar kemur að menntamálum, eins og við erum í svo mörgu öðru.“

Tæknin verði að gera gagn

Tækninni hefur fleygt fram á síðustu árum og hafa möguleikarnir þegar kemur að notkun hennar aukist til muna, ekki síst í menntamálum. Íris telur að Ísland standi framarlega hvað tækjavæðingu varðar en hagnýt tækni inni í tækjunum sé af mjög skornum skammti.

Þá skipti máli hvernig tæknin er innleidd en sýnt hafi verið fram á að tilvist tækja inni í skólastofunni geti haft neikvæð áhrif á námsárangur ef innleiðingin er ekki markviss. Sé notkunin aftur á móti stýrð og tæknin nýtist í raun og veru sé árangurinn ótvíræður.

„Tæknin verður alltaf til staðar en það á náttúrulega ekki að innleiða tæknina tækninnar vegna, það á að innleiða tæknina þar sem hún gerir gagn,“ segir Íris.

Aðferð sem hefur sýnt sig og sannað

Evolytes byggir á þverfaglegum rannsóknum sem gerðar voru á þriggja ára tímabili. Niðurstöður rannsóknanna fóru fram úr björtustu vonum en börnin sem tóku þátt svöruðu allt að 1.200 spurningum á dag í leiknum að eigin frumkvæði í frítíma sínum.

Þá sýndu börnin að meðaltali fram á fjórfalt meiri vöxt í námsefninu með því að nota kerfið miðað við í skólanum en börn með undirliggjandi vanda sýndu fram á mestan vöxt. Auk þess voru börnin jákvæðari gegn stærðfræði við lok rannsóknarinnar en þau voru fyrir.

Börnin sem tóku þátt í rannsókninni svöruðu allt að 1.200 spurningum á dag.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Á bak við leikinn er reiknirit sem gefur nemendum einstaklingsmiðað námsefni í rauntíma, þannig að hver einasta spurning sem barn svarar hefur áhrif á hvaða spurningu það fær næst. Að sögn Írisar geta þau þannig tryggt að enginn fari lengra en hann hefur getu til.

„Við erum að passa upp á að það sé jafnvægi á milli þess sem við vitum að þú kannt og þess sem þú ert að læra, þannig að nemandi upplifi sig alltaf færan sama hvar hann er staddur.“

Námskerfið sjálft kom út á einstaklingsmarkaði hér á landi í mars 2020 og strax um haustið var kerfið tekið upp í 15 skólum. Í dag er kerfið í notkun í nær 80% allra skóla á landinu, auk þess sem kerfið hefur verið tekið upp víða erlendis.