Barack Obama Bandaríkjaforseti segist nú eygja von fyrir hagkerfi Bandaríkjanna. Hann vísar í þessu sambandi til aukinna lánveitinga til lítilla fyrirtækja og lækkunar vaxta á veðlánum til marks um að landið sé að komast í gegnum fjármálakrísuna, að því er segir í frétt FT.

Í fréttinni segir að sumir íhaldsmenn hafi sakað forsetann um að tala hagkerfið niður frá því hann tók við fyrir rúmum þremur mánuðum. Á föstudag hafi hins vegar gætt varfærinnar jákvæðni hjá honum eftir fund með Ben Bernanke seðlabankastjóra og Sheila Bair, formanni stjórnar innstæðulánasjóðsins.

Jákvæðari tónn hjá Obama kemur í framhaldi af ummælum Lawrence Summers, efnahagsráðgjafa Hvíta hússins á fimmtudag, sem spáði því að sú tilfinning að hagkerfið væri í frjálsu falli mundi hverfa á næstu mánuðum.