*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 30. mars 2020 20:55

Reyni að komast hjá endurgreiðslum

Forstjóri Úrval-Útsýn gagnrýnir flugfélögin og segir „ekkert eðlilegt við það að flugfélag og banki séu að reka hér ferðaskrifstofur”.

Ritstjórn
Þórunn Reynisdóttir er forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrval-Útsýn.
Haraldur Guðjónsson

Þórunn Reynisdóttir forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrval-Útsýn segir ekki ganga að flugfélög fái að hundsa reglur um endurgreiðslur til flugfarþega sem ekki geti nýtt sér farmiða sína vegna veirufaraldursins en ferðaskrifstofur þurfi að gera það innan fjórtán daga að því er fram kemur á Túrista.

Segir hún að flugfélög hafi reynt að komast hjá endurgreiðslum og til að mynda hafi Icelandair til að byrja með einungis boðið inneignarbréf á flugi, þó látið hafi verið af þeirri kröfu á föstudag.

Enn hafi þó engu verið svarað um hvenær von sé á endurgreiðslum frá félaginu og bendir hún á að flugfélagið eigi í mikilli beinni samkeppni við aðrar íslenskar ferðaskrifstofur í gegnum eignarhluti sína í iceland Travel og Vita sem sitji á stórum hluta á markaðnum.

Gagnrýnir hún að á sama tíma og óvíst sé með flug næstu misserin vegna Covid 19 heimsfaraldursins geti flugfélagið nýtt ríkisstuðning í þessi fyrirtæki þar sem forstjórinn sé til að mynda stjórnarformaður Vita, sem og að Arion banki eigi þriðju stóru ferðaskrifstofuna, Heimsferðir.

„Það er engu að síður ekkert eðlilegt við það að flugfélag og banki séu að reka hér ferðaskrifstofur. Við sitjum því ekki við sama borð og þessi fyrirtæki, það er nokkuð ljóst,” segir Þórunn.

Hún segir ríkið geta komið til móts við ferðaskrifstofur með því að veita lengri endurgreiðslufrest, en er ánægð með tilmæli um að taka við inneignarbréfum frá þeim, þó hún hefði viljað fá að halda eftir smá þóknun vegna vinnu í kringum ferðirnar sem séu nú fyrir bý.

„Ef það kemur til þess að íslenska ríkið muni styðja við Icelandair með séraðgerðum þá verður samdægurs að skilja flugreksturinn frá þessum ferðaskrifstofum og setja Icelandair miklar skorður í sölu á pakkaferðum. Það yrði galið að ríkisstuðningur við Icelandair yrði nýttur til að styrkja dótturfélög flugfélagsins í samkeppni við fyrirtæki eins og okkar.”