Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í viðtali í Kastljósi í kvöld að hann liti ekki þannig á að hann hefði haft í hótunum við forseta Íslands eftir að hann synjaði að staðfesta Icesave lögin í janúar 2010. Hann vildi ekki svara því hvað hafi farið á milli forsætisráðherra og forsetans í kjölfar synjunar forsetans þegar Sigmar Guðmundsson spurði um harkaleg viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur og hótanir um stjórnarslit.

„Ég sagði við forsetann eftir synjunina í janúar 2010 að ég myndi hugsa minn gang," sagði Steingrímur við Sigmar. Það hefði hann gert í tvo sólarhringa og komist að þeirri niðurstöðu að halda áfram. Annars hefði honum fundist hann hlaupa frá málum á mikilvægum tíma. Þetta gætu þingmenn í Vinstri grænum og hans nánustu samstarfsmenn staðfest.