Einar Hugi Bjarnason og Jóhann H. Hafstein, hæstaréttarlögmenn, hafa ákveðið að breyta til og stofna rekstur undir nafninu Atlas lögmenn, en eins og VB.is greindi frá fyrir tveimur vikum hafa þeir yfirgefið eigendahóp Íslensku lögfræðistofunnar.

Lögmannsstofan er til húsa á 11. hæð í Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7 í Reykjavík. Aðrir starfsmenn stofunnar eru Þorsteinn I. Valdimarsson hdl. og Lilja Guðmundsdóttir, skrifstofu- og fjármálastjóri.

Ástæðu breytinganna segja þeir ekki síst að rekja til þess að Atlas lögmenn hyggist leggja ríkari áherslu á þjónustu við fyrirtæki og stofnanir heldur en gert var á fyrri vinnustað. Verður þannig sérstök áhersla lögð á lögfræðilega ráðgjöf og hagsmunagæslu til lögaðila á sviði viðskipta- og fjármunaréttar, enda hafi starfsmenn stofunnar sérþekkingu á því sviði. Markmiðið sé að mæta síauknum kröfum viðskiptalífsins um sérþekkingu á þessu sviði.