Hröfnunum þykir fátt skemmtilegra en að lesa ávörp bankaráðsformanna í árskýrslum. Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, kemur víða við í ávarpi sínu þetta árið.

Eitt umfram annað vakti þó eftirtekt hrafnanna. Hún segir mikilvægt „að bankinn hugi áfram að því að fjölga tekjustofnum sem styrkja reksturinn og gera honum kleift að bjóða enn fjölbreyttari og betri fjármálaþjónustu.“

Hrafnarnir eiga erfitt með að lesa þessi orð án þess að setja þau samhengi við fyrirhugaða sölu Kviku banka á TM.

Þrálátur orðrómur hefur verið um áhuga Landsbankans á TM og samkvæmt Ármanni Þorvaldssyni forstjóra og hans fólki í Kviku mun draga til tíðinda annað hvort á öðrum eða þriðja ársfjórðungi í þeim efnum.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.