Í kvöldfréttum Sjónvarpsins 23. september sl. hélt Sigríður H. Björnsdóttir aðstoðarfréttastjóri því fram að tjón sem ráðherrar hefðu valdið með vanrækslu sinni í bankahruninu hafi numið að minnsta kosti 11.000 milljörðum króna.

Þetta er glórulaus tala.

Leiðrétting kom í 10-fréttum sama kvöld, snubbótt og auðvitað með mun minna áhorfi. 1000 milljarðar áttu það víst að vera.

***

Í hádegisfréttum útvarps daginn eftir var frétt eins og enginn hefði verið gærdagurinn. Viðmælandinn sá sami, Guðrún Johnsen, lektor í HR, og varafréttastjórinn enn á sínum stað.

Þá kom fram enn ein upphæðin á tjóninu sem ráðherrarnir áttu að vera sekir um að hafa valdið, 400-500 milljarðar.

Sú upphæð er byggð á veikum grunni. M.a. er þar gert ráð fyrir að Ísland beri a.m.k. 100 milljarða vegna Icesave.

Guðrún Johnsen sérfræðingur í útreikningi.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

***

Er það virkilega svo að skoðun Guðrúnar Johnsen og Sigríðar H. Björnsdóttur um að Ísland eigi að greiða tjónið vegna Icesave vegi þyngra en sjónarmið allra helstu lögfræðinga landsins og mikils meirihluta þjóðarinnar?

***

Í fréttinni kemur fram að Guðrún telji ekki að þingmannanefndin hafi farið fram úr sér með því að leggja til að Ingibjörg Sólrún yrði dregin fyrir Landsdóm.

Og hvað. Er hagfræðingurinn Guðrún skyndilega orðinn lögfræðingur?

Meiri lögfræðingur en Páll Hreinsson hæstaréttardómari sem taldi að Ingibjörg Sólrún hefði ekki sýnt af sér vanrækslu.

***

Hvernig getur Ríkisútvarpið borið þetta á borð landsmanna?

***

Týr hefur fundið lausnina á skuldavanda fyrirtækjanna og heimilanna. Fá þær stöllur Guðrúnu og Sigríði til að gera nokkrar fréttir um málið og þá endar skuldin í brot af broti af upphaflegri fjárhæð.