Þrátt fyrir sæmilega kröftuga byrjun á árinu á hlutabréfamörkuðum hefur syrt í álinn að undanförnu.

Þannig hafa Róbert Wessman og aðrir hluthafar í Alvotech tekið á sig hressilegan skell síðan seint í febrúar en hlutabréfaverðið hefur fallið um meira en 30% eftir að hafa náð sínu hæsta gildi í mánuðinum. Væntingar voru, eftir að félagið hélt markaðsdag með fjárfestum, um að fréttir myndu berast af stórum sölusamningum sem síðan bárust ekki – að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Síðan þá hafa veðkallar verið á ferðinni um alla borg en eftir því sem hrafnarnir heyra hefur þeim verið mætt með kostum og kynjum af fjárfestum sem hafa glaðir bætt við tryggingum.

En meðan mótvindurinn eykst í Kauphöllinni virðist námuvinnslufyrirtækið Amaroq bara hækka og hækka. Fjárfestar virðast hafa mikla trú á fyrirtækinu sem sendir reglulega frá sér tilkynningar um jákvæðar niðurstöður af tilraunaborunum og öðru því tengdu. Það myndi ekki koma hröfnunum á óvart að þegar fram í sækir muni berast tilkynning um að Eldur Ólafsson forstjóri fyrirtækisins væri farinn að grafa eftir rafmyntum á athafnasvæði félagsins á Grænlandi – með höndunum!

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.