Hrafnarnir sjá að Einar Þorsteinsson borgarstjóri og hans fólk í meirihlutanum ætla að ganga með betlistaf alla leið til Parísar til þess að slá lán hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins. Það er kannski við hæfi þar sem meginhlutverk Þróunarbankans er að styðja við uppbyggingu í fátækustu ríkjum álfunnar.

Það að borgin freisti þess að leita á náðir Þróunarbankans er enn eitt birtingarform grafalvarlegrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Það er ekki að ástæðulausu að borgin leitar að lánsfé í París. Allar aðrar dyr standa lokaðar. Bankarnir geta ekki lánað borginni meira fé og skuldabréfamarkaðurinn er svo gott sem lokaður vegna mikils framboðs af skuldabréfum borgarinnar.

Neyðaraðstoð frá AGS næst á dagskrá?

Þá dettur þeim sem stýra borginni það snilldarráð að leitast eftir erlendu rekstrarláni hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins. Hrafnarnir spá að með þessu áframhaldandi endi þeir með því að óska eftir neyðaraðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.