Gunnar Birgisson, hinn athafnasami fyrrum bæjarstjóri Kópavogs, lét eitt sinn þau frægu orð falla að gott væri að búa í Kópavogi. Hrafnarnir ætla alls ekki að draga orð Gunnars í efa en getur þó ekki betur séð en að Reykjavíkurborg, undir styrkri stjórn Einars Þorsteinssonar, sé hægt en örugglega að sigla fram úr Kópavogi í lífsgæðakapphlaupinu.

Þannig kynnti borgin nýverið til leiks hinn nýja og byltingarkennda Leikskólareikni sem sýnir stöðu umsókna í leikskóla borgarinnar. „Forráðafólk barna og önnur áhugasöm geta ráðfært sig við Leikskólareikninn og fengið þannig áætlaða spá um stöðu sinna barna á biðlista,“ eins og segir í fréttatilkynningu borgarinnar.

Í stuttu máli hefur borgin sem sagt sett í loftið tól sem sínir útsvarsgreiðendum í rauntíma hve ömurleg þjónusta borgarinnar í raun og veru er. Hin sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins geta svo sannarlega ekki stært sig af slíkri þjónustu.

Um leið sannar rándýr upplýsingatæknideild borgarinnar, sem núverandi meirihluti setti á laggirnar til að leiða stafræna vegferð borgarinnar, svo sannarlega gildi sitt.

Ekki nóg með það fengu íbúar Reykjavíkurborgar aðra snemmbúna sumargjöf frá borgaryfirvöldum er auglýst var eftir tívolístjóra til að starfrækja parísarhjól við hafnarbakkann.

Samkvæmt tilkynningu borgarinnar á verkefnið rætur sínar að rekja til hugmyndavinnu innan borgarinnar um haftengda upplifun. Í ljósi þessa þætti hröfnunum eðlilegast að parísarhjólið yrði staðsett ofan í hafinu svo haftengd upplifun gesta verði sem raunverulegust.

Stóra spurningin hlýtur þó að vera hvort faglegt ráðningarferli skeri úr um hver hreppi hnossið sem tívolístjóri Reykjavíkurborgar eða hvort skipað verði pólitískt í stöðuna. Verði hið síðarnefnda niðurstaðan telja hrafnarnir þúsundþjalasmiðinn Eirík Hjálmarsson, sjálfbærnistjóra Orkuveitu Reykjavíkur, vera augljósasta kostinn í starfið.

Verður Eiríkur Hjálmarsson skipaður pólitískt í starf tívolístjóra Reykjavíkurborgar?
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.