Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka þarf að endurreikna hvert eitt og einasta lán, sem á annað borð hefur verið talið ólöglegt. Þar með talin eru öll bílalán, gengisbundin íbúðalán og fyrirtækjalán. Áhrif þessa nema tugum milljörðum.

Þetta segja Skarphéðinn Pétursson hrl. hjá Veritas lögmönnum og Guðmundur Ingi Hauksson verkfræðingur hjá Veritas ráðgjöf í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Þeir segja dóminn eyða óvissu um hvernig endurreikna skuli ólögleg gengistryggð lán.

„Samkvæmt dóminum er óheimilt að endurreikna ólögleg gengistryggð lán á íslenskum seðlabankavöxtum afturvirkt eins og lög 151/2010 kveða á um, óháð því hvort um er að ræða lán til fyrirtækja eða einstaklinga. Hæstiréttur er mjög skýr í forsendum sínum að afturvirkni þeirra laga sé íþyngjandi fyrir þegnana og gangi gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar,“ segir í grein þeirra.

Þeir telja að áhrifin af þessum dómi eigi eftir að verða mikil og gera megi ráð fyrir að fjárhæðir séu mældar í tugum milljarða króna. „Jafnframt er ekki ólíklegt að einhver skaðabótamál rísi í kjölfar dómsins þar sem bankarnir hafa í mörgum tilfellum gengið hart fram gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum ef fjárhagstaða var ekki talin viðunandi miðað við lánastöðu samkvæmt endurútreikningi bankanna. Nú liggur hins vegar fyrir að lögleg staða lánanna er mun lægri, svo munar tugum prósenta, og því vakna upp spurningar um réttarstöðu aðila sem misst hafa eignir vegna ólöglegra endurreiknaðra lána.“