*

mánudagur, 10. desember 2018
Innlent 19. september 2017 08:17

Hætt við Sólarkísilver á Grundartanga

Silicor Materials gat ekki fjármagnað 120 milljarða verksmiðju og áfrýjaði ekki dómi um að hún þyrfti að fara í gegnum umhverfismat.

Ritstjórn
ÞÖK

Bandaríska fyrirtækið Silicor Materials hefur skilað lóð á Grundartanga við hlið álvers Norðuráls og fallið alfarið frá uppbyggingu sólarkísilvers hér á landi með því að segja upp lóðar-, lóðarleigu- og hafnarsamning við Faxaflóahafnir sem undirritaður var í apríl 2015.

Stjórnarfundur Faxaflóahafna tók í gær fyrir bréf Michael Russo framkvæmdastjóra Silicor Materials Iceland ehf. þessa efnis, sem sent var í lok ágúst.  Gísli Gíslason hafnarstjóri segir að nú sé útséð um verkefnið að því er Morgunblaðið greinir frá. „Um nokkra hríð hefur okkur verið ljóst að það voru erfiðleikar í fjármögnun,“ segir Gísli en í samtali við Vísi sagði hann:

„Við gáfum þeim kost á að ganga frá [samningunum] ef ekki lægi fyrir fjármögnun og nú liggur fyrir afstaða þeirra um að þeir hafi ekki getað fjármagnað verkefnið.“ 

Áfrýjuðu ekki dómi um umhverfismat

Í gær rann jafnframt út frestur fyrirtækisins til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. júní á þessu ári þess efnis að kísilverið þyrfti að fara í umhverfismat, en verksmiðjan átti að skapa 450 störf. 

Þar með var fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar um að verið þyrfti ekki að fara í gegnum umhverfismat hnekkt. Hún var tekin m.a. á þeim grundvelli að vegna þess að margar hliðarafurðir verksmiðjunnar myndu nýtast sem söluvara og því væri um lokað framleiðsluferli að ræða. Í dóm Héraðsdóms var sú fullyrðing sögð vart geta staðist.

„Hins vegar ber ákvörðunin ekki með sér að lagt hafi verið sjálfstætt mat á eðli framkvæmdarinnar með tilliti til stærðar og umfangs hennar, nýtingar náttúruauðlinda, þar á meðal orkuauðlinda, eða slysahættu sem hún skapar,“ segir meðal annars í dómsorðinu.

Fengu byggðaaðstoð en hægðu á undirbúningi

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun júní ákvað fyrirtækið að hægja á undirbúningi verkefnisins vegna tafa á fjármögnum og mikilla kostnaðarhækkana á Íslandi. 

Þá hafði blaðið fjallað um það í febrúar á þessu ári að óvíst væri hvort framkvæmdin, sem metin var á 120 milljarða króna, yrði að veruleika, en í júlí á síðasta ári veitti Eftirlitsstofnun EFTA samþykki fyrir sérstakri byggðaaðstoð til fyrirtækisins vegna uppbyggingarinnar á Grundartanga.