Landeigandi að Grímsstöðum á Fjöllum segist hissa á tillögum nefndar um erlendar fjárfestingar sem birtar voru fyrir helgi. Hann hafi vonast til þess að meira jafnræðis yrði gætt milli aðila utan og innan EES svæðisins. Hann segir tíu ára leigutíma, sem nefndin leggur til, vera of stuttan. Þessu greinir RÚV frá.

Ef verður farið að tillögum nefndar um erlendar fjárfestingar verður erlendum aðilum utan EES óheimilt að kaupa land sem er stærra en 5-10 hektarar undir atvinnustarfsemi. Hins vegar verður heimilt að leigja land undir slíka starfsemi. Nefndin var skipuð í kjölfar þess að Huang Nubo, kínverski fjárfestirinn, lýsti yfir áhuga á að kaupa 72 prósenta hlut í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum.

Jóhannes Haukur Hauksson, einn fjögurra landeigenda að þeim hluta jarðarinnar, segir í samtali við RÚV að með tillögunum sé verið að girða fyrir þann möguleika að menn kaupi land yfir tiltekinni stærð.

Eftir að stjórnvöld höfnuðu því að Huang yrði leyft að kaupa jörðina varð úr að hún yrði seld eignarhaldsfélagi sveitarfélaga á svæðinu, sem myndi síðan leigja Huang jörðina til lengri tíma. Samkvæmt tillögum nefndarinnar verður þetta heimilt en nefndin leggur til að erlendir aðilar, utan og innan EES, geti tekið allt það land á leigu sem þeir hafa þörf fyrir, ef þeir hyggjast nota það undir atvinnustarfsemi. Leigutíminn yrði til tíu ára í stað þriggja eins og nú er.

Jóhannes segist finnast þessi leigutími sem er nefndur mjög stuttur. Hann segist halda að það sjái allir sem ætluðu að reisa sér hús eða einhverja atvinnustarfsemi á einhverju landi að þeir vildu nú hafa tryggingu til lengri tíma en tíu ára. Hann segir þó tíu ár geta verið nóg ef endurnýjun væri sjálfkrafa og háð eðlilegum skilyrðum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði í fréttum RÚV fyrir viku að ríkisstjórnin myndi fara yfir tillögurnar þegar þær kæmu fram, og taka afstöðu til þeirra.