Líkur eru á pólitískum óstöðugleika á erfiðri stjórnarmyndum á Spáni eftir þingkosningar í landinu, að mati The Wall Street Journal .

Enginn flokkur kom út sem skýr sigurvegari kosninganna og líkur eru á því að hvorki verður auðvelt að mynda meiri- né minnihlutastjórn. Ríkjandi meirihlutaflokkur, Popular Party fékk flest sæti en tapaði þó meirihluta sínum á þinginu. Flokkurinn var með 186 af 350 þingsætum, en er nú með 123 sæti.

Miðjuflokkurinn Ciudadanos fékk 40 þingsæti en flokkurinn var fyrirfram talinn líklegasti samstarfsflokkur Popular flokksins. Flokkarnir ná þó ekki meirihluta saman.

Sósíalistaflokkurinn fékk 90 þingsæti og stjórmálaflokkurinn Podemos, sem er lengst til vinstri og systurflokkur Syriza í Grikklandi, fékk 69 þingsæti. Aðrir flokkar eru með 28 þingsæti.

Hlutabréf á Spáni lækkuðu og ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hækkaði við opnun markaða í dag. Þetta eru töluverðar hækkanir á ávöxtunarkröfu skuldabréfanna, en efnahagur landsins hefur farið batnandi síðustu mánuði.