Í byrjun næsta árs mun fimmtánda CrossFit stöðin á Íslandi opna, en íþróttin hefur átt stöðugt vaxandi vinsældum að fagna hér á landi síðan fyrstu slíku stöðvarnar voru opnaðar árið 2008.

Verður nýja stöðin opnuð á Grandagarði sem er í póstnúmeri 101, og mun hún bera nafnið CrossFit Grandi, en hún bjóða upp á bæði hefðbundið Crossfit auk svokallaðra Fitness tíma, þar sem lögð verður áhersla á tæknilega einfaldar úthaldsæfingar.

„Aðstandendur stöðvarinnar eru Jakobína Jónsdóttir, Númi Snær Katrínarson, Elín Jónsdóttir og Grétar Ali Khan,“ segir í umfjöllun um stöðina á heimasíðunni fjölhreysti.is .

„Jakobína og Númi verða aðalþjálfarar en þau eru mjög reynslumiklir þjálfarar og CrossFit keppendur. Jakobína hefur lengi verið þjálfari í CrossFit Reykjavík og Númi er þjálfari og einn eigenda CrossFit Nordic í Svíþjóð.“

Opnar um svipað leiti og Mjölnir flytur

Um áramótin mun bardagaklúbburinn Mjölnir, sem boðið hefur upp á alhliða íþróttaaðstöðu á svæðinu, flytja austur fyrir læk í gömlu Keiluhöllina í Öskjuhlíðinni.

Fyrir utan íþróttahús Háskóla Íslands hefur lengi ekki verið um aðra hefðbundna líkamsræktarstöð fyrir almenning að ræða í vesturbæ Reykjavíkur, en næsta stöð er World Class á Seltjarnarnesi. Hins vegar hefur nú í um 18 mánuði starfað jógasetrið Sólir jóga og heilsusetur á Fiskislóð, á næstu grösum við væntanlega Krossfitstöð.