Fréttir voru sagðar af því í Ríkisútvarpinu á mánudag að athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson, sem sumir telja að beri ábyrgð á nokkrum skuldum hér á landi, hafi greitt upp 1,3 milljarða króna lán vegna lúxusíbúðar á Manhattan-eyju og hafi greiðslan borist frá bankareikningi erlendis.

Þetta þótti nokkrum tíðindum sæta, enda hafði Jón Ásgeir áður lýst því yfir að hann sæti ekki á digrum sjóðum í skjóli úti í heimi. Velflestir fjölmiðlar fylgdu þessu eftir, en sérstaklega fylgdust menn spenntir með því hvernig fjölmiðlar Jóns Ásgeirs myndu fjalla um málið. Þó þátttöku Jóns Ásgeirs í íslensku athafna og fjármálalífi sé að mestu lokið er hann nefnilega enn réttnefndur fjölmiðlakóngur, með Fréttablaðið og Stöð 2 á sínum snærum.

Stöð 2 hefur látið vera að minnast á málið, en á síðu 2 í Fréttablaðinu á þriðjudag mátti lesa örfrétt Svavars Hávarðssonar, þar sem haft var eftir Ingibjörgu Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs, að íbúðin væri á hennar nafni, greiðslan hefði ekki borist frá bónda hennar og var á henni að skilja að málið kæmi honum ekki við.

Heldur var þetta nú ódýr afgreiðsla og í fréttinni vottaði ekki fyrir gagnrýnum spurningum, sem þó vöknuðu örugglega hjá flestum lesendum. Raunar vottaði þar ekki fyrir spurningum yfirhöfuð. Menn mættu minnast þeirra vísdómsorða Matthíasar Johannessen, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, að hann hafi ekki verið ráðinn sem segulband.

***

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eignarhald Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á fjölmiðlum vekur spurningar um erindi hans og trúverðugleika miðlanna. Fréttablaðið féll þarna á enn einu prófinu.

***

Þennan sama mánudag voru birtir tölvupóstar á vefnum hvitbok.vg, sem sagðir voru sýna bréfaskriftir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ara Edwald, forstjóra 365, aðfaranótt 30. apríl. Þessir tölvupóstar litu sennilega út hvað orðfæri og annað slíkt áhrærir, en efni þeirra var að Jón Ásgeir vildi láta reka Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóra Stöðvar 2, en Ari sagði hann engu þurfa að kvíða, sér skildist að hann myndi hætta um miðjan maí.

Sem kunnugt er sagði Óskar Hrafn starfi sínu lausu hinn 11. maí, en daginn áður hafði hann sagst ekki vera á förum sem fréttastjóri. Tilefnið var röng frétt af meintum fjármagnsflutningum viðskiptavezíra fyrri tíma til skattaskjóla erlendis, sem enginn fótur reyndist fyrir, og fjallað hefur verið um á þessum stað.

Ari Edwald sagði að tölvupóstar þessir væru tilbúningur, en Hvítbók dró frétt sína til baka meðan áreiðanleiki heimildarinnar væri kannaður betur. Það bendir óneitanlega til þess að heimildarýnin hafi ekki verið með besta móti í upphafi. Hvað sem í ljós kemur um sannleiksgildi póstanna blasir það hins vegar við að meðan Jón Ásgeir er eigandi fjölmiðla verða sífelldar efasemdir um trúverðugleika þeirra.

***

Á dögunum voru sagðar af því fréttir að nokkrir Íslendingar, vel við skál, hefðu látið dólgslega á Ítalíu og m.a. laskað bíla með því að traðka á þeim. Í Sandkorni DV á mánudag var minnst á þetta. Þar var einn mannanna nafngreindur en aðalpunkturinn var sá að móðir hans væri Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Nú er ekki að efa að einhverjum kann að þykja ættfærslan forvitnileg og slúðurdálkar á borð við Sandkorn lúta aðeins öðrum lögmálum en eiginlegar fréttir. Þetta var samt fremur lítilmótlegt hjá DV. Þar kom ekkert fram um að sonur Ingibjargar Sólrúnar ætti nafngreiningu fremur skilið en félagar hans nema vegna móðernisins.

***

Frá Frakklandi eru sagðar miklar fréttir af spillingarásökunum á hendur Nicholas Sarkozy forseta og Éric Woerth atvinnumálaráðherra. Nafni ráðherrans, sem er ættaður frá hinu hálfþýska Alsace (Elsass), voru gerð ýmis skil í íslenskum fjölmiðlum, oftast umrituð að enskum hætti.

Það er merkilegt að það var aðeins á RÚV sem nafn hans var rétt ritað (skv. birtingu á vefnum). Hefði maður þó haldið að prentmiðlarnir myndu leggja meiri áherslu á að nota kórrétta stafsetningu, þó um framandi sérstafi sé að ræða.

***

Ýmsir hafa orðið til þess að gagnrýna boðsferð hóps blaðamanna til Brussel á vegum Evrópusambandsins og gefið til kynna að blaðamennirnir séu fyrir vikið lítt marktækir um ESB og aðildarviðræður Íslands.

Á boðslistanum var m.a. ritstjóri Viðskiptablaðsins og er fjölmiðlarýni ljúf skylda að upplýsa að hann hefur ekki enn lofsungið ESB í sín eyru. Nú má vel vera, þegar listinn er skoðaður, að þar séu óvenjumargir hallir undir aðild, en það er þá bara vandamál ESB vilji það endilega verja fjármunum í að kristna kristniboða.

Kynnisferðir af þessu tagi eru engan veginn athugaverðar sem slíkar. Þær geta þvert á móti verið afar gagnlegar fyrir blaðamenn til þess að kynna sér flókin og knýjandi viðfangsefni á borð við Evrópusambandið. Fráleitt er að halda því fram að viðkomandi blaðamenn verði fyrir vikið umsvifalaust málpípur Evrópusambandsins. Blaðamenn eru ekki heilalausar hórur að upplagi, þó sjálfsagt megi finna þess dæmi.

En það er rétt að halda því til haga þegar blaðamenn þiggja boðsferðir. Ekki síst ef viðurgerningurinn er sérlega góður. Æ sér gjöf til gjalda og allt það.