Skúli Mogensen fyrrverandi forstjóri lággjaldaflugfélagsins Wow air segir ástæðu þess að hann hyggist bjóða upp á hópfjármögnun fyrir almenning sem vilji hjálpa til við að endurreisa félagið sé vegna þess að hann hafi fengið „hvatningu til þess að bjóða almenningi til að taka þátt í þessu með okkur“, að því er RÚV greinir frá.

Eins og sagt hefur verið frá í fréttum í morgun mun hann þó hafa knappan tíma, eða út vikuna til að ná samkomulagi um leigu flugvéla sem enn eru merktar félaginu áður en farið verður í að endurmála þær fyrir útleigu til annarra félaga.

„Ég hef fengið óheyrilega jákvæð viðbrögð frá almenningi, út um allt land,“ segir Skúli spurður út í viðbrögð við áætlunum sínum, en gert er ráð fyrir að lágmarksupphæð sé um 250 þúsund krónur á hvern þátttakanda.

Þó hefur ekki komið fram hvað styrktaraðilar fái í staðinn, eins og hefð er fyrir, en oft er um ýmis konar vörur eða þjónustu er að ræða frá fyrirtækinu sem fær fjármögnun, eða jafnvel hlutafé.