*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Innlent 21. september 2017 16:24

Vill endurvekja Nýjustu tækni og vísindi

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins telur það nauðsynlegt að brúa bilið á milli vísinda og atvinnulífs.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, telur nauðsynlegt að brúa bil á milli vísinda og atvinnulífs. „Samtökin vilja að Ísland verði í fremstu röð í nýsköpun í heiminum, eða á fimm efstu sætum í alþjóðlegum úttektum þar sem horft er til margra mælikvarða,“ sagði framkvæmdastjórinn á Rannsóknaþingi Rannís sem haldið var á Grand Hótel í morgun þar sem fjallað var um nýja stefnu- og aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs undir yfirskrift þingsins „Heimur örra breytinga“.

Sigurður sagði enn fremur að miðlun vísinda og tækni til almennings væri þörf. „Ég vil leyfa mér að stinga upp á því að þátturinn Nýjasta tækni og vísindi verði endurvakinn. Það mun hafa mun meiri áhrif en blaðagreinar og auglýsingar  um mikilvægi vísindastarfs. Að þessu sögðu fagna ég framkominni stefnu og bind miklar vonir við þá vinnu sem framundan er. Það er nauðsynlegt að vel takist til því menntun, rannsóknir, nýsköpun og framtakssemi eru drifafl framtíðarvaxtar á Íslandi,“ sagði Sigurður. 

Sjónvarpsþættirnir Nýjasta tækni og vísindi voru á dagskrá Ríkisútvarpsins á árunum 1967-2004. Þátturinn var í umsjón Örnólfs Thorlacius á árunum 1967-1974 en þá kom Sigurður H. Richter dýrafræðingur til liðs við þáttinn og sáu þeir um hann í sameiningu á árunum 1974-1980.