„Ég er búinn að vera í frábærri vinnu sem leiklistin er fyrir mér og eiga gott líf. Mér finnst ég mjög heppinn að hafa verið í vinnu sem ég er svona ánægður í. Það eru ekki allir svo heppnir að hafa gaman af því sem þeir gera. Ég man þegar ég var yngri og ekki kominn í bransann og maður vann svona við eitt og annað sem manni fannst miður skemmtilegt. Ég veit ekki hvernig lífið hefði verið ef maður hefði bara verið í því að skipta um vinnu og unnið við eitthvað, bara til þess að vinna.“ Það er auðheyrt að leiklistin er ekki bara vinna fyri Ladda, hún er ástríða en eins og þekkt er í störfum á borð við leiklist getur starfsöryggið verið brösótt og innkoman eftir því. Spurður hvort það hafi aldrei komið erfiðtímabil á ferlinum þar sem það hefði einfaldlega verið auðveldastað gefast upp og fara í venjulega átta til fjögur vinnu þá segir hann það vissulega hafa gerst en að hann hefði mjög fljótt gert sér grein fyrir því að það hentaði sér illa. „Ég þarf að vera frjáls. Enda er ég hlaupandi út um allt á milli verkefna og finnst það æðislegt.

Dreymir um venjulegt hlutverk

Eitt af þeim verkefnum sem Laddi lauk nýverið við var að fara með lítið hlutverk í kvikmyndinni Fullir vasar. En það er fyrsta hlutverkið sem Laddi hefur farið með sem vondi karlinn eins og hann orðar það sjálfur. „Ég er búinn að bíða lengi eftir því að fá að leika vonda karlinn og það var ofsalega gaman.“ Laddi segist mjög meðvitaður um það að hann hafi tileinkað sig gríninu og að þar liggi styrkur hans en hann segist samt sem áður verða að játa það að hann dreymi um að leika venjulegt hlutverk. „Eðlilega kemur nafnið mitt upp þegar það þarf að búa til gott grín en ég er fullfullviss um að ég geti leikið venjulega manneskju. Ég bara veit það. Svo vill nú bara þannig til að grínistar eru oft á tíðum mjög tilfinningaríkir því það sem flestir grínistar eiga sameiginlegt er að þeir hafa upplifað erfiðleika í æsku eða átt erfitt uppdráttar í lífinu með einum eða öðrum hætti.“  Á því er engin undantekning í tilfelli Ladda. „Ég átti mjög erfiða æsku á köflum og lenti í einelti í skóla, en í þá daga var það bara kallað stríðni. Svo var ég án efa með athyglisbrest  og er, en á þeim tíma var ekki búið að finna hann upp og maður var bara dæmdur tossi. Afleiðingarnar af þessu öllu saman fyrir mig varð ofboðslega mikil minnimáttarkennd, óöryggi og feimni. Ég fór að trúa því að ég gæti  ekki lært og missti alveg trúna á sjálfum mér.“

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .