Birna Bragadóttir, framkvæmdastjóri Sandhotels, stýrir hóteli á daginn og hleypur upp fjöll, syndir í sjó og margt fleira í frítíma sínum en nýlega náði hún þeim áfanga að verða landvættur. Eftir vinnu tók þessa kraftmiklu konu tali um daglegt líf og störf.

Þann 1. júní opnaði Sandhotel á Laugavegi 34 en þá tók Birna við sem framkvæmdastjóri þess. Aðkoman að hótelinu er einstaklega falleg en gengið er inn í port sem minnir helst á litla göngugötu í framandi borg. Gestir og gangandi sjá inn í Sandholt bakarí, bæði gesti þess sem og bakara að störfum sem gerir upplifunina strax persónulega. Í tæpt ár fyrir opnun hótelsins hafði Birna unnið að undirbúningi þess með eigendum, hönnuðum, iðnaðarmönnum, starfsfólki og öllu því öfluga fólki sem kom að verkefninu. Starfsreynsla Birnu er fjölbreytt, enda hefur hún starfað á ýmsum sviðum atvinnulífsins. „Mér finnst gaman að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni á ólíkum sviðum. Einn góður vinnufélagi minn líkti mér við alhliðagæðing.“

Byrjaði í háloftunum

Birna byrjaði að vinna hjá Icelandair árið 1999 sem flugfreyja en fljótlega fékk hún starfsþróunartækifæri innanhúss og vann við þjónustustjórnun, mannauðsstjórnun og þjálfun og fræðslu starfsmanna. „Eftir 13 ár hjá félaginu fannst mér tímabært að víkka reynslu mína og kynnast fleiri atvinnugreinum. Ég réði mig því sem starfsþróunarstjóra Orkuveitu Reykjavíkur þar sem ég fékk m.a. tækifæri til að láta til mín taka í málaflokki sem er mér afar hugleikinn, sem eru jafnréttismálin. Ég er mjög stolt af því að afrakstur þeirrar vinnu skilaði fyrirtækinu bæði jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs og hvatningarverðlaun jafnréttismála.“ Þaðan fór Birna til Capacent þar sem hún starfaði sem stjórnunarráðgjafi með áherslu á þjálfun stjórnenda, mannauðsstjórnun, markþjálfun og breytinga- og þjónustustjórnun. „Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera góðir vinnuveitendur. Þar naut ég þess að starfa með og læra af öflugu og hæfu fólki.“

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Þjónustan er aðal atriðið

Hótelþróun Sandhotels er fyrsta nýsköpunarverkefnið sem Birna hefur tekið þátt í frá grunni en hún segir það snerta á öllu sem þurfi að huga að við mótun nýs fyrirtækis.„Fyrir þann tíma hafði ég starfað hjá stórum fyrirtækjum á íslenskan mælikvaða. Hótelverkefnið reyndi á nýja hæfni og fól í sér margar áskoranir, enda ekki hægt að hringja eftir aðstoð hjá viðkomandi stoðsviði í svona verkefni eins og hjá stórfyrirtæki. Það gerist ekkert gerist af sjálfu sér. Öllum verkefnum þarf að fylgja vel eftir og maður þarf fyrst og fremst að treysta á sjálfan sig.“ Birna segir það hinsvegar æðislega tilfinningu þegar allt smelli saman að lokum. „Ég gleymi til dæmis ekki fyrstu viðskiptavinunum sem innrituðu sig á hótelið. Ég var svo spennt að fylgjast með því að ég beið fram á kvöld til að fylgja því eftir að allt gengi upp. Svo var ég auðvitað jafnspennt að heyra upplifun gesta á hótelinu, þjónustunni, ferðunum og Íslandi. Því fylgist ég með daglega.“ Eftir opnun hótelsins hefur Birna einbeitt sér að áframhaldandi uppbyggingu þess og rekstri. „Mitt markmið er að reka hótel sem veitir framúrskarandi þjónustu til gesta, ásamt því að móta vinnustað sem er góður og eftirsóknarverður. Gestir finna það strax þegar þeir koma inn á hótel þegar vinnuumhverfið er jákvætt og afslappað. Þá njóta þeir dvalarinnar betur. Það er ekki nóg að umgjörð hótelsins og hönnunin sé til falleg heldur er það þjónustan sem er aðalatriðið.“ Birna segist líta á það sem sitt hlutverk að að skapa réttu umgjörðina til að ná þeim markmiðum. „Ég trúi því að ánægðir starfsmenn veiti betri þjónustu og það sé góður „business“ að vera með fókus á þjónustustjórnun og mannauðsmál. Fyrirfram hefði ég ekki trúað því hvað það er gaman að vinna á svona fallegum vinnustað eins og hótelið er. Hönnunin og listaverkin sem það prýða veita mér innblástur á hverjum degi.“

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Hágæða hótel

Sandhotel er 52 herbergja hágæða „boutique“ hótel í mið- borginni. Það samanstendur af gömlum húsum sem hafa sett svip sinn á Laugaveginn í langan tíma og eru tengd við nýbyggingu. Það má segja að þetta sé eins konar þyrping. „Í hóteluppbyggingunni var það haft að leiðarljósi að vanda til verka og hlúa að öllum þeim smáatriðum sem skapa heildarmyndina í upplifun gesta á hótelinu. Herbergin eru með hlýlegu Art Deco yfirbragði þar sem saga húsanna fær að njóta sín samhliða klassískum og hágæða áherslum í húsgagnavali. Öll herbergin prýða gegnheilt parkett og sérsmíð- aðar innréttingar. Húsbúnaður er frá Restoration Hardware. Öll baðherbergin eru með granít og marmara frá hólfi í gólf. Svo er sérvalið nútímalistaverk í hverju herbergi sem gerir hvert og eitt þeirra einstakt, að minnsta kosti að okkar mati.“

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Mikil saga í húsinu

Birna segir hótelið lánsamt að vera í góðum félagsskap rótgróinna fyrirtækja sem hafa sett svip sinn á Laugaveginn í heila öld. „Við höfum lagt áherslu á að tengja hótelið við sögu húsanna þar sem bakarinn, klæðskerinn og rithöfundurinn eiga allir sína sögu. Sandholtsbakarí hefur í heila öld verið starfrækt í húsinu og boðið upp á bakkelsi, konfekt og kaffi. Gestir hótelsins fá notið veitinga og konfekts úr bakaríinu. ∑Verslun Guðsteins er tengd við hótelið með ýmsum hætti.Við erum til dæmis með púða inni á herbergjum sem saumaðir eru úr fatnaði af lager Guðsteins. Starfsfólk gestamóttöku er í einkennisfatnaði frá Guðsteini. Það er sami klæðnaður fyrir konur og karla sem við gerum til að undirstrika jafnrétti sem er okkur mikilvægt.“ Halldór Laxness fæddist síðan í einu bakhúsanna, Laugavegi 32b, árið 1902. „Til að undirstrika þessa tengingu þá er fjöldi nútímalistaverka sem prýða hótelið. Þau voru valin með ráðgjöf Ásmundar Sturlusonar. Listaverkavalið er með ákveðna tengingu við bakarann, klæðskerann og rithöfundinn, í öllum rýmum hótelsins. Svo eru falleg listaverk sem prýða portið sem gengið er inn á hótelið.“

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Viðurkenningar og vel unnin störf

Birna segir fólk almennt vilja gera vel við sig þegar það dvelur á hóteli. „Við hönnun herbergja vildum við skapa umgjörð og andrúmsloft þannig að gestum gefist kostur á að hvílast vel. Herbergin eru hönnuð með það í huga að veita gestum skjól frá amstri hversdagsins. Fjárfest var í hágæðarúmum frá Serta, Duxiana sængum og koddum og ítölskum rúmfötum frá Quagliotti. Það var góð ákvörðun og við heyrum það daglega hvað gestir kunna vel að meta það.“ Hótelið hefur nú þegar hlotið viðurkenningar og verð- skuldaða athygli en Birna segir það mjög mikils virði að hafa fengið þær jákvæðu umsagnir sem gestir hótelsins hafa gefið hótelinu varðandi þjónustu og hönnun þess. „Við höfum það að markmiði að allir gestir séu ánægðir með dvölina og vilji koma til okkar aftur.“ Nýverið fékk Sandhotel inngöngu í hin eftirsóttu samtök Small Luxury Hotels (SLH) strax á fyrstu mánuðum í rekstri. SLH njóta mikillar virðingar í hágæðaferðaþjónustu og hafa innan sinna raða mörg af fallegustu lúxushótelum heims, í yfir 80 löndum. Þessi hótel eiga það sameiginlegt að vera sjálfstæð, það er að segja ekki hluti af keðju, fallega hönnuð og njóta sérstöðu. „Það er mikill heiður fyrir okkur að komast þangað inn þar sem hótelið þarf að uppfylla stranga gæðastaðla varðandi þjónustu og hönnun til þess að fá að tilheyra SLH. Kostir þess að vera í SLH fyrir sjálfstætt hótel eins og Sandhotel eru meðal annars þeir að þau veita sínum hótelum stuðning í markaðs- og kynningarmálum, aðgang að lúxusferðaheildsölum um allan heim og beinan aðgang að tryggum viðskiptavinahópi sem bókar beint í gegnum SLH .

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Undir sama hatt og fallegustu hótel heims

„Við erum líka stolt af því að vera meðlimir í Mr & Mrs Smith, sem eru sambærileg samtök, en þar erum við í góðum félagsskap einstakra „boutique“ hótela um allan heim.“ Til að komast í þann góða hóp þurfa hótel m.a. að vera: einstök, bjóða upp á fallega hönnun, gestrisin, veita persónulega þjónustu og vera peningana virði. Sandhotel er nú tilnefnt til Mr & Mrs Smith Hotel Awards 2018 í flokknum „Local Hotel Hero“. Með því að vera meðlimur í Small Luxury Hotels og Mr & Mrs Smith er Sandhotel sett undir sama hatt og mörg af fallegustu hótelum heims. Það er mjög mikils virði fyrir Sandhotel, en einnig fyrir hágæðaferðaþjónustu á Íslandi sem fer vaxandi.“ Bakarinn, klæðskerinn og rithöfundurinn Öll herbergi hótelsins eru með hlýlegu Art Deco yfirbragði þar sem saga húsanna fær að njóta sín samhliða klassískum og hágæða áherslum í húsgagnavali. Jafnvægi vinnu og einkalífs er list sem ég hef ekki náð að tileinka mér, þrátt fyrir að hafa rekið heimili í 22 ár og skrifað BA ritgerð um viðfangsefnið. Í lok árs bætast svo við 14 herbergi til viðbótar í Guð- steinshúsinu á Laugavegi 34. Verslun Guðsteins verður áfram rekin með óbreyttu sniði á jarðhæðinni, en á efri hæðunum verða fallega innréttuð hótelherbergi. „Vorið 2018 verður lokið við að gera upp tvö bakhús við hótelið þar sem innangengt verður í fallegan garð. Þá verður hótelið fullbúið, með 80 herbergjum.“

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Baráttan um jafvægi vinnu og einkalífs

Það má ætla að það sé krefjandi að reka heilt hótel, hvernig heldur þú þér sjálfri í jafnvægi og formi til þess að hafa úthald fyrir starfið og fjölskylduna sömuleiðis? „Jafnvægi vinnu og einkalífs er list sem ég hef ekki náð að tileinka mér, þrátt fyrir að hafa rekið heimili í 22 ár og skrifað BA ritgerð um viðfangsefnið. Ætli börnin mín séu ekki best til frásagnar um það, eða kannski ekki, þar sem þau þekkja ekki neitt annað heimilislíf. Við Siggi Kári, maðurinn minn, höfum bæði verið í krefjandi störfum í langan tíma. Við skiptumst einfaldlega á, eftir því hvernig málin standa hjá okkur hverju sinni. Okkar „félagslega velferðarkerfi“ er líka gott. Afar og ömmur hafa komið sér vel þegar veikindi barna, „óvæntir“ starfsdagar, vetrarfrí og desembermánuður sem er fullur af skertum vinnudögum birtast á dagatalinu.“ Birna segist alveg sek um að taka vinnuna með sér heim. „Ég vinn mjög oft á kvöldin og um helgar. Hótelið er opið allan sólarhringinn, allan ársins hring, og það er ýmislegt sem kallar á að maður sé aðgengilegur.“

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Sjósund besta núvitundaræfingin

Birna hugar einstaklega vel að heilsunni þrátt fyrir annasama daga og segir hún það einmitt galdurinn á bak við úthaldið. Hefur hún verið dugleg að skora á sjálfan sig með öðruvísi hreyfingu undanfarin ár. „Öll mín fullorðinsár hef ég þvælst inn og út af líkamsræktarstöðvum, eins og margir þekkja. Hef átt góðar tarnir og síðan tekið langar pásur. Stundum mjög langar. Eftir að hafa misst hvatann og viljann til mæta í líkamsræktarsalinn ákvað ég að prófa sjósund sumarið 2016. Það var ansi erfitt að koma sér út í kaldan sjóinn fyrst, en þegar skiptunum fjölgaði þá fann ég hvað sjórinn og útivistin gerði mér gott. Sjósund er besta núvitundaræfing sem ég veit um og maður kemur alltaf endurnærður á líkama og sál eftir slíkan sundsprett. Það er alltaf áskorun að koma sér út í kaldan sjóinn og að sama skapi er það valdeflandi að stíga upp úr sjónum eftir góðan sundsprett. Í hvert skipti fær maður það á tilfinninguna að maður hafi náð að sigra sjálfan sig. Maður kemur alltaf glaður úr sjósundi sem að mínu mati er fullkomin núllstilling og besta „quick fix“ sem ég veit um. Svo hef ég gaman af áskorunum. Ég hef í tvígang synt fram og til baka Fossvoginn, synt boðsund með vinkonum yfir Skerjafjörðinn í kaffi á Bessastaði, og síðan komst ég á pall á Íslandsmeistaramótinu í 3.000 metra sjósundi í sumar, sem er líklega með því erfiðasta sem ég hef gert. Hins vegar átti ég mjög eftirminnilega sundstund í sumar þegar ég synti með Bjarti, labradorhundinum mínum, í Skerjafirðinum.“

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Hvatvís ákvörðun til betri heilsu

Eftir að hafa fundið það á eigin skinni hvað sjósundið gerði henni gott ákvað hún að láta á það reyna að æfa úti. „Ég vinn inni og var hætt að vilja þvinga mig í líkamsræktarsalinn. Ég hafði heyrt vel af Landvættaprógrammi Ferðafélagsins látið og tók frekar hvatvísa ákvörðun um að taka þátt í því. Landvættaprógrammið samanstendur af fjórum mismunandi þrautum sem leysa þarf á á 12 mánaða tímabili í öllum fjórum landshlutunum. Það eru Fossavatnsgangan, sem er 50 km skíðaganga á Ísafirði, Bláa lóns fjallahjólaþrautin (60 km), Urriðavatnssund (2,5 km) og Jökulsárshlaupið (33 km). Úr varð að ég og vinkonur mínar, Þórey Vilhjálmsdóttir og Anna Kristín Kristjánsdóttir, skelltum okkur í Landvættarprógrammið og byrjuðum að æfa. Fyrir það hafði ég aldrei stigið á gönguskíði, né hjólað á fjallahjólið, né hlaupið náttúruhlaup og var ég ekkert sérstaklega góð að synda skrið- sund. En ég lærði þetta eitt af öðru og tókst á við sjálfan mig í glímu við þrautirnar. Ég setti mér það markmið að klára þrautirnar og njóta þess að berjast við þær.“

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Ætlar næst að gerast landkönnuður

Birna segist gríðarlega ánægð með að hafa náð markmiði mínu og orðið Landvættur nr. 178. „Að hafa heilsu til að takast á við sjálfan mig í fallegri náttúru Íslands er frábært. Algjör forréttindi. Landvættaáskorunin er með þeim betri sem ég hef tekist á við og eflt mig á svo margan hátt. Mér finnst lítið mál núorðið að koma mér landshluta á milli til að upplifa náttúruna með mjög fjölbreytt um hætti. Nú er sjórinn og vötnin orðin glænýr kostur til að stunda útivist og ég nýt þess loksins að hreyfa mig og hlakka alltaf til að komast út. Það eru auðvitað algjör forréttindi að búa á þessu fallega landi og hafa beinan aðgang að fjölbreyttri náttúru. Í hreyfingu sem og starfi þá þrífst ég á því að takast á við fjölbreyttar og krefjandi áskoranir og það er alltaf gaman að upplifa ný ævintýri. Það fer líka vel saman þegar maður starfar í ferðaþjónustu að þekkja Ísland og njóta náttúrunnar. Maður getur þá að minnsta kosti talað við gesti hótelsins af þekkingu um þessa hluti, sem er kostur.“ Verandi búin að ná öllum þessum markmiðum á skömmum tíma leikur okkur forvitni á að vita hvað Birna ætlar að takast á við næst. „Ég er ákveðin í að halda áfram á þeirri braut sem ég hef valið mér og njóta þess að hreyfa mig úti í íslenskri náttúru. Nú er komið á listann hjá okkur vinkonunum að gerast „Landkönnuðir“ á næsta ári og taka þátt í nýjum áskorunum í vetrarfjallamennsku, þríþraut og fleiru skemmtilegu sem ég hef ekki prófað. Ég stefni líka að því að takast á við Landvætta- þrautirnar fjórar aftur og vonandi að bæta tímann aðeins. Enda áttu þær aldrei að vera bara hak í boxið, heldur miklu frekar lífsstíll. Ég er líka ákveðin í að halda áfram að stunda sjósund og synda til Viðeyjar. Ætli ég reyni ekki síðan að spila meira golf með manninum mínum, ef ég hef tíma.“