Indíana Nanna Jóhannsdóttir þjálfari, móðir og eigandi æfingastöðvarinnar GoMove Iceland telur lykilinn að árangri og ánægju í eigin rekstri vera ástríða.

Hún hefur farið fjölbreyttar leiðir í að miðla sinni ástríðu og þekkingu áfram. Fyrir utan hefðbundna stað- og netþjálfun hefur hún t.d. gefið út bókina „Fjarþjálfun“, flutt fyrirlestra, verið með matarnámskeið, haldið æfingaferðir á hótel og þjálfað heimsfræga leikkonu úti á landi.

í byrjun þessa árs opnaði hún æfingastöð GoMove Iceland á Kársnesinu.
í byrjun þessa árs opnaði hún æfingastöð GoMove Iceland á Kársnesinu.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Haustið 2017 þegar Indíana var nýorðin 25 ára ákvað hún að stökkva í djúpu laugina. Hún sagði upp í vinnunni sinni sem vefstjóri og sneri sér alfarið að þjálfun. „Ég fann að það var grundvöllur fyrir þessu. Ég var komin með nokkra hópa í þjálfun til mín og fannst þetta raunhæft.“ segir Indíana ástríðufull.

Í janúarbyrjun 2018 var Indíana orðin sjálfstætt starfandi þjálfari í fullu starfi, þá nýlega búin að komast að því að hún ætti von á sínu fyrsta barni. „Þetta var heldur betur kröftug byrjun á nýju ári. Við Finnur áttum von á okkar fyrsta barni og ég var byrjuð að elta draumana og starfa 100 prósent sjálfstætt sem þjálfari.“

Aðspurð út í hvort áhyggjur og hræðsla hafi ekki fylgt þessu stóra stökki segir hún ákveðin: „Þetta var klikkað en mér fannst þetta geðveikt! Ég held að það hafi verið eftir þriðju æfinguna í fyrstu æfingavikunni þegar ég hringdi í Finn og sagðist halda að ég gæti aldrei unnið við eitthvað annað aftur. Ég var svo glöð með þetta. Mér leið eins og ég hefði fundið mig algjörlega.“

Nánar er rætt við Indíönu Nönnu í blaðinu Eftir vinnu sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.