Þýski íþróttavörurisinn Adidas hyggst slíta samstarfi sínu við Kanye West eftir framkomu rapparans síðustu misseri, samkvæmt heimildum Bloomberg. Talið er að Adidas muni tilkynna um ákvörðun sína fljótlega, jafnvel síðar í dag.

Hlutabréf Adidas hafa fallið um meira en 3% frá opnun markaða, sem sumir fjölmiðlar hafa rakið til fregnanna um endalok samstarfsins við Kanye.

Lækkun Adidas má einnig rekja til neikvæðrar afkomuviðvörunar eftir lokun markaða á fimmtudaginn síðasta en félagið varaði við að hagnaður þess í ár verði um 60% lægri en upphaflega var gert ráð fyrir. Gengi Adidas féll um meira en 9% á föstudaginn.

Ummæli og hegðun Kanye síðastliðnar vikur hafa vakið hörð viðbrögð og gagnrýni. Samfélagsmiðlarnir Twitter og Instagram hafa sett takmarkanir á aðgang hans og fjarlægt færslur sem skilgreindar voru sem gyðingahatur.

Kanye hefur átt í samstarfi við Adidas frá árslokum 2013. Yeezy skólínan hans hefur reynst afar vinsæl og skilað rapparanum miklum auðæfum. Sambandið hefur hins vegar verið stirt að undanförnu en Kanye sakaði þýska fatarisann um að standa ekki við samninga um að opna sérverslanir í kringum Yeezy skóna og að Adidas hafi stolið hönnun af sér.

Bandaríski fataframleiðandinn Gap sleit einnig samstarfi sínu við Kanye í síðasta mánuði og fjölmiðlar halda því fram að Balenciaga hafi sömuleiðis sagt skilið við rapparann.