Matsnefnd eignarnámsbóta birti í byrjun júlímánaðar þrjá úrskurði er allir viðkoma deilum um eignarnámsbætur vegna tvöföldunar Þjóðvegs 1 við Kjalarnes.

Fyrsti fasi verkefnisins er nú langt á veg kominn, ná framkvæmdirnar frá botni Kollafjarðar og að Grundarhverfi. Seinni áfangi framkvæmdanna nær svo frá Grundarhverfi og að Hvalfjarðargöngum, áætlað er að sú framkvæmd hefjist á næsta ári.

Í öllum þremur tilvikum hækkaði nefndin bæturnar úr 254 kr. á fermeter og upp í 325 krónur á fermeter, sem gerir 28% hækkun á eignarnámsbótum.

Verðlagt sem landbúnaðarland

Bjarni Bærings er eigandi og fyrirsvarsmaður Titaya ehf. fasteignaþróunarfélags sem á jörðina Dalsmynni á Kjalarnesi, félagið stefnir á umfangsmikla byggingu íbúðarhúsnæðis á jörðinni. "Það er ekki verið að leggja veg til að tengja land, heldur til að auka umferðaröryggi. Það væri frekar ráð að lækka hér hámarkshraðann og sleppa því að svipta fólk eign sinni."

Samkvæmt matsbeiðni tók eignarnámið tæplega 10 ha landspildu, en landið er í heild 80 ha. Bjarni er ekki ánægður með niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.  "Það er ekki tekið tillit til þess að hér eigi að rísa íbúðabyggð,  og nefndin metur landið sem landbúnaðarsvæði, fyrir sveitastjórnarkosningar var mikið talað um að þetta yrði framtíðarbyggingarland. Ég greiddi töluvert hærra verð á hektara þegar ég keypti jörðina heldur en bæturnar miðast við."

Bjarni hefur kært eignarnámið sjálft til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðsins, kæran barst í lok september í fyrra en enn hefur ekki verið tekin ákvörðun í málinu. "Við munum taka þetta alla leið til Mannréttindadómstól Evrópu ef við þurfum þess", bætir Bjarni við. Hann vekur einnig athygli á því að matsnefndin hafi ekki viljað úrskurða um bætur vegna þess málskostnaðar stjórnsýslukærunnar til ráðuneytisins. Það sé hinsvegar í hrópandi ósamræmi við álit umboðsmanns Alþingis frá árinu 2002, þar sem sagði í álitinu að allur kostnaður eignarnámsþola vegna eignarnámsins, þ.á.m. kostnaður við stjórnsýslukæru skuli bættur.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.