Ýmsir markaðsaðilar á bandaríska skuldabréfamarkaðnum spá því að Seðlabanki Bandaríkjanna gæti hækkað stýrivexti á næstunni.

Í umfjöllun Financial Times segir að viðhorf markaðarins hafi sveiflast til á undanförnum vikum en fyrr í ár voru margir orðnir vongóðir um að vaxtalækkunarferli Seðlabanka Bandaríkjanna gæti hafist fljótlega.

Nýlegar hagtölur gefa til kynna að hagkerfið kunni að vera heitara en áður var talið. Síðustu þrjár verðbólgumælingar í Bandaríkjunum hafa þannig verið yfir væntingum markaðsaðila.

Lawrence Summers, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna, er meðal þeirra sem hafa rætt opinberlega um að seðlabankinn kunni að hækka vexti á næstunni vegna, m.a. vegna verðbólguþróunar vestanhafs.

Verðlagning á afleiðumarkaði endurspeglar mat markaðsaðila að það séu 20% líkur á að Seðlabanki andaríkjanna hækki vexti á næstu tólf mánuðum.

Greining á afleiðumarkaði gefur þó til kynna að flestir telji líklegast að seðlabankinn muni lækka stýrivexti um 0,25 prósentur einu sinni eða tvisvar í ár. Til samanburðar átti markaðurinn í janúar von á sex eða sjö slíkum vaxtalækkunum á árinu.