Bernard Arnault og fjölskylda eru komin í efsta sæti á auðmannalista Forbes . Jeff Bezos hefur trónað á toppi listans síðustu mánuðina en auður hefur fallið um 13 milljarða dala, eða um 1.600 milljarða króna í kjölfar 7% lækkunar á hlutabréfaverði Amazon í dag.

Lækkunin á hlutabréfagengi Amazon kemur í kjölfar uppgjörs annars ársfjórðungs sem birtur var eftir lokun markaða í gær. Fyrirtækið tilkynnti um hægari tekjuvöxt og varaði við því að hagnaðurinn á þriðja ársfjórðungi yrði minni en á sama tíma í fyrra.

Sjá einnig: Hægari tekjuvöxtur hjá Amazon

Auður Jeff Bezos nemur í dag 192,6 milljörðum dala. Auðæfi Bernard Arnault og fjölskyldu er metinn á 194,1 milljarð dala en þau stýra tískurisanum LVMH, sem á meðal annars Louis Vuitton merkið. LVMH er stærsta fyrirtæki Evrópu miðað við markaðsvirði en hlutabréfaverð tískufyrirtækisins hefur hækkað um 30% í ár.

Elon Musk, stofnandi Tesla, prýðir þriðja sæti listans með 179 milljarða dala. Á eftir honum kemur Bill Gates í fjórða sæti með 131 milljarða dala og Mark Zuckerberg situr í því fimmta með 129 milljarða dala.