*

föstudagur, 24. janúar 2020
Innlent 23. maí 2019 15:03

Bjóða smáíbúðir á 17 til 34 milljónir

Þorpið vistfélag hefur fengið vilyrði fyrir lóðir undir íbúðir sérstaklega ætluðum ungu fólki í Gufunesi.

Ritstjórn
Stefnt er að uppbyggingu á Gufunesi í Grafarvogi.
Haraldur Guðjónsson

Borgarráð samþykkir lóðavilyrði til Þorpsins vistfélags vegna svokallaðs hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Gufunesi. Félagið auglýsir íbúðir í nýju smáíbúðahverfi á 17-34 milljónir króna sem verða afhentar kaupendum eftir ár.

Þorpið vistfélag hefur undanfarin tvö ár unnið að þróun á nýju hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og varð í 2. sæti í samkeppni Reykjavíkurborgar um lóðir í haust. Borgarráð hefur nú samþykkt lóðavilyrði til félagsins á grundvelli samkeppninnar. Þorpið hugsar þetta nýja hverfi í Gufunesi sem lifandi vistþorp í borg.

Framleiddar úr timbureiningum frá Litháen

Íbúðirnar verða að því er fram kemur í fréttatilkynningu vandaðar, umhverfisvænar og ódýrar. Þorpið vistfélag byggir íbúðir sínar í Gufunesi úr timbureiningum (módúlum) sem framleiddar eru innanhúss við kjöraðstæður. Hús úr timbri eru jafnframt sögð mun vistvænni en hús úr steypu því um 8% af heildarlosun CO2 í heiminum sé vegna framleiðslu og notkunar á sementi og steypu.

Í dag undirrituðu Þorpið-vistfélag og Modulus yfirlýsingu um samstarf varðandi framleiðslu á húsum í Gufunesi sem verða framleidd í Lettlandi. Fyrirtækið hefur á síðustu árum m.a. byggt hótel á Kirkjubæjarklaustri og fjölbýlishús fyrir Byggingafélagið Bjarg á Akranesi en Bjarg er leigufélag ASÍ og BSRB.

Húsin eru framleidd með timbri úr sjálfbærum skógum og félagið hefur óskað eftir því við Reykjavíkurborg að fá heimild til að planta grenndarskógi á grænu aðliggjandi svæði fyrir ofan byggðina til kolefnisjöfunar á flutningi og samsetningu húsanna.

Breyta úr allt að 7 hæða blokk í 4 hæða hús

Hönnuðir Gufunesverkefnis Þorpsins eru Yrki arkitektar sem hafa m.a. hannað nýjar íbúðir á Móavegi fyrir Byggingarfélagið Bjarg og stúdentagarða í Vatnsmýri fyrir Félagsstofnun stúdenta.

Í gildandi deiliskipulagi er leyfi til þess að byggja 5-7 hæða blokkir á lóðinni. Hugmyndafræði félagsins byggir hins vegar á lægri og þéttari byggð þar sem 2-4 hæða hús eru byggð í kringum sameiginlegt torg en grænar götur tengja saman byggðina sem opnast út til sjávar.

Við torgið verða sameiginlegt þvottahús, kaffihús og veislusalur ástamt pósthúsi fyrir aðsendar vörur og matvæli. Hverfið á þannig að verða sjálfbært þorp þar sem göturnar eru vistgötur fyrir fólk en ekki bíla.

Staðsetning og hæð húsa skapar skjólsælt, sólríkt og grænt umhverfi þar sem mikil sameign er við torgið á fyrstu hæð en íbúðir þar fyrir ofan. Eitt 4ra hæða hús skapar byggðinni skjól fyrir norðaustanátt en allar götur eru með sjávarsýn og húsin út við sjóinn eru einungis tvær hæðir til að hámarka fjölda íbúða með útsýni.

Gufunesið býður upp á einstaka staðsetningu fyrir sveit í miðri borg. Nýtt smáíbúðahverfi Þorpsins verður vistvænt samfélag þar sem metnaður verður lagður í endurvinnslu og umhverfismál. Byggðin liggur að einstakri stönd og handan við byggingarnar tekur við stórt grænt svæði.

Þorpið hefur óskað eftir því við Reykjavíkurborg að fá til ráðstöfunar á aðliggjandi grænu svæði reiti fyrir grænmetisgarða og hænsnaræktun. Þá munu þeir íbúar sem það kjósa geta fengið aðgang að rafknúnum deilibílum.