Hugmyndir um að taka upp millidómstig hér á landi hafa verið kynntar dómurum við Hæstarétt og þeir sýnt þeim áhuga, að því er fram kemur í svari Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar. Morgunblaðið innti Markús eftir viðbrögð við því sem fram kemur í ritgerð Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi dómara við Hæstarétt, um brýna nauðsyn þess að stofna millidómstig þegar í stað.

Blaðið birtir svör Markús í dag. Hann segir að Hæstiréttur myndi ekki tjá sig um þá gagnrýni sem Jón Steinar setur fram á störf dómara við Hæstarétt né hvernig varadómarar og dómarar eru valdir til réttarins. Markús tekur engu að síður undir með Jóni Steinari að álag á Hæstarétt er mikið og hafi verið brugðist við því.

„Rétturinn hefur staðið það vel af sér í störfum sínum. Við auknu álagi hefur m.a. verið brugðist með því að dómurum var fjölgað úr níu í tólf á árinu 2011 og hefur þetta gefið góða raun, en sú ráðstöfun er þó aðeins tímabundin,“ segir m.a. í svari Markúsar.