Walt Disney hyggst opna eigin efnisveitu í Bandaríkjunum fyrir kvikmyndir, sjónvarpsþætti og íþróttir í þeim tilgangi að koma efni sínu beint til neytenda. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Aðgerðirnar koma í kjölfarið á því að áskriftum að sjónvarpsstöðvum fyrirtækisins hefur fækkað auk mikillar samkeppni frá efnisveitum á netinu.

Fyrirtækið mun opna streymisþjónustu fyrir efni ESPN íþróttastöðvarinnar snemma á næsta ári og streymisþjónustu fyrir efni frá Disney á árinu 2019. Þá hefur fyrirtækið einnig gefið það út að samstarfi við Netflix verði slitið.

Tilkynningin frá fyrirtækinu kom á sama tíma og það greindi frá því að hagnaður á öðrum ársfjórðungi hafði dregist saman um 9% frá sama tíma í fyrra.

Frá því að tilkynningin birtist hefur hlutabréfaverð Walt Disney lækkað um 3,72% á eftirmarkaði. Þá hefur gegni hlutabréfa Netflix lækkað um 4,1%.