Tekjur Símans á fyrsta árs­fjórðungi námu um 6,6 milljörðum króna saman­borið við 6,3 mill-jarða á sama tíma­bili 2023. Um 4,4% tekju­aukningu er að ræða en tekjur af kjarna­þjónustum Símans, far­síma, gagna­flutningi og sjón­varps­þjónustu aukast um rúm­lega 7% á milli tíma­bila.

Rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir og fjár­magns­liði (EBITDA) nam 1,4 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi og hækkar um 120 milljónir eða 9,1%. EBITDA hlut­fallið er 21,8% á 1F 2024 en var 20,9% á sama tíma­bili 2023. Rekstrar­hagnaður (EBIT) nam 431 m.kr. á 1F 2024 saman­borið við 318 m.kr. á sama tíma­bili 2023.

„Tekjur, EBITDA og EBIT aukast milli ára á fyrstu mánuðum ársins sem er á­nægju­legt, og eins og stefnt var að. Ó­venju mikil hreyfing var á fjar­skipta­markaðinum, sem alla jafna er þó afar líf­legur, en fyrsti fjórðungur ein­kenndist af mikilli nýsölu hjá Símanum en einnig meira brott­falli en fyrr. Ríf­leg inn­göngu­til­boð til­tekinna markaðs­aðila höfðu þar tals­verð á­hrif um nokkurra vikna skeið,” segir Orri Hauks­son, for­stjóri Símans.

Hrein fjár­magns­gjöld námu 195 milljónum á tíma­bilinu sem er tölu­verð hækkun úr 1 milljón á sama tíma­bili 2023.

„Vaxta­gjöld hafa hækkað en einnig voru vaxta­tekjur af skulda­bréfi vegna sölu Mílu á 1F 2023. Fjár­magns­gjöld námu 375 m.kr., fjár­muna­tekjur voru 183 m.kr. og gengi­stap nam 3 milljónum,“ segir í árs­hluta­upp­gjöri Símans

Hagnaður á tíma­bilinu dróst þá saman milli ára og nam 171 milljónum saman­borið við 246 milljón króna hagnað á sama tíma­bili 2023.

Vaxta­berandi skuldir sam­stæðu að leigu­skuld­bindingum með­töldum námu 16,2 milljörðum króna í lok fjórðungsins en voru 10,5 milljarðar í árs­lok 2023.

„Á kostnaðar­hlið rekstrar sam­stæðunnar gekk flest eftir eins og við mátti búast, utan þess að starfs­lok eins fram­kvæmda­stjóra voru gjald­færð. Ný­legir kjara­samningar voru í takt við vænt-ingar okkar og flestir kostnaðar­liðir fyrir­sjáan­legir og sam­kvæmt væntingum. Síminn heldur á­fram að vera fremur skuld­létt fé­lag, þótt fyrir­tækja­kaup á fjórðungnum hafi að hluta verið fjár­mögnuð með nýju láns­fé. Álag á þær skuldir sem fé­lagið aflar á markaði er með því hag-stæðasta sem þekkist á Ís­landi en hátt vaxta­stig hefur engu að síður tölu­verð á­hrif.“

Hand­bært fé Símans í lok fyrsta fjórðungs nam 2 milljörðum en var 1,8 milljarðar í árs­lok 2023. Staða út­lána hjá Símanum Pay var 2,9 milljarðar í lok tíma­bilsins og jókst lítils­háttar á fjórðungnum.

Eigin­fjár­hlut­fall Símans var 44,4% í lok fyrsta árs­fjórðungs og eigið fé 18,1 milljarðar.

„Á fyrir­tækja­markaði verður á næstunni boðið upp á sterkara vöru­úr­val en fyrr, meðal annars með nýju fyrir­tækja­kredit­korti, upp­færðri síma­vist og bættum net­kerfum. Vöru­fram­boð til aug­lýs­enda tók stakka­skiptum með því að Síminn eignaðist Bill­board og tengd fé­lög. Fram á við getur sam­stæðan þannig boðið aug­lýs­endum fjöl­breyttar leiðir til að ná til þeirra mark­hópa sem þeir kjósa. Við fögnum nýjum með­limum Síma­fjöl­skyldunnar og upp­færum af­komu­spá fyrir sam­stæðuna í heild með til­liti til inn­komu þeirra, sem og horfur út árið.”