Alþjóðlega líftæknifyrirtækið Oculis var tekið til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar í morgun undir auðkenninu OCS en félagið var fyrir skráð á hlutabréfamarkað Nasdaq í New York.

Einar Stefánsson, prófessor Emeritus, annar stofnenda Oculis hringdi bjöllunni ásamt Sylvia Cheung, fjármálastjóra Oculis og Páli Ragnari Jóhannessyni, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar Oculis.

Einar stofnaði Oculis árið 2003 ásamt Þorsteini Loftssyni, prófessor emeritus í lyfjafræði, sem gat ekki verið viðstaddur athöfnina í morgun.

Tækni Oculis byggir á nanóögnum, gerðum úr sýklódextrín-sameindum, sem hafa verið þróaðar til að ferja lyf í augndropunum frá yfirborði augans til bakhluta þess. Það lyf sem lengst er komið í þróun hjá Oculis, OCS-01, gæti orðið fyrsta lyfið í formi augndropa til meðhöndlunar á sjúkdómi í afturhluta augans. Það gæti stórlega dregið úr þörf á að sprauta lyfinu í augað.

Oculis lauk á dögunum 8,2 milljarða króna hlutafjáraukningu en meðal fjárfesta sem komu nýir inn í hluthafahópinn voru íslenskir stofnanafjárfestar. Stjórnendur Oculis gera ráð fyrir að þessi fjármögnun ásamt núverandi sjóðum félagsins, verðbréfum og skammtíma fjárfestingum muni duga til að fjármagna rekstur og fjárfestingarþörf félagsins inn á seinni helming ársins 2026.

© Aðsend mynd (AÐSEND)