Umtalsverður árangur náðist í auknum endurheimtum þrotabús Landsbanka íslands og nam raunaukningin á áætluðu verðmæti eigna milli ársfjórðunga um 15 milljörðum króna. Þetta segir í tilkynningu á vef gamla Landsbankans. Sé tekið mið af sölu LBI á eignarhlutnum í verslunarkeðjunni Iceland Foods, sem tilkynnt var um í dag, nemur raunaukningin á áætluðum endurheimtum samtals um 85 milljörðum króna.

„Miðað við sömu forsendur eru áætlaðar endurheimtur í lok síðasta árs, að meðtöldum framangreindum hlutagreiðslum, rúmlega 1.370 milljarðar króna, sem er rúmlega 51 milljarði króna meira en sem nemur bókfærðri stöðu forgangskrafna fyrir framangreindar hlutagreiðslur. Ef tekið er mið af sölu á eignarhlut LBI í verslunarkeðjunni Iceland Foods eru endurheimtur, að meðtöldum framangreindum hlutagreiðslum, nú áætlaðar nærri 1.440 milljörðum króna, eða um 121 milljarði króna hærri en sem nemur bókfærðri stöðu forgangskrafna fyrir framangreindar hlutagreiðslur,“ segir í tilkynningunni.