Innan við tveir mánuðir eru í að þingi verði frestað og bíða fjölmörg stjórnarfrumvörp eftir afgreiðslu. Bæði nýir og gamlir ráðherrar eiga eftir að mæla fyrir stórum málum.

Hjá nýjum fjármálaráðherra má nefna frumvarp um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, frumvarp um slit ÍL-sjóðs og frumvarp um svokallaðan Þjóðarsjóð og nýjum matvælaráðherra er falið að mæla fyrir frumvarpi um lagareldi en heildarlög um sjávarútveginn þurfa líklega að bíða fram á haust.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi frá því þegar hann tók við að helstu áherslumál sitjandi ríkisstjórnar væru útlendinga- og umhverfismálin, en þau hafa verið í brennidepli síðustu mánuði.

Meðal mála sem umhverfisráðherra hefur boðað eru frumvarp um raforkuöryggi og frumvarp um virkjunarkosti í vindorku en þó nokkur mál sem boðuð voru á þingmálaskrá, þar á meðal frumvarp um hið svokallaða ETS2-kerfi, hafa ekki enn verið lögð fram. Þá var stefnt á að tillaga til þings-ályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun, 4. áfangi rammaáætlunar, yrði lögð fram í vor.

Hvað útlendingamálin varðar sagði Bjarni að núverandi ástand hér á landi væri ósjálfbært og óásættanlegt. Grundvallaratriði væri að lagafrumvörp dómsmálaráðherra sem snúa að útlendingamálum yrðu kláruð á yfirstandandi þingi en dómsmálaráðherra hefur meðal annars lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga sem snúa að alþjóðlegri vernd og frumvarp um lokuð búsetuúrræði.

Ljóst er að fjöldamörg stjórnarmál sem bíða afgreiðslu innan þingsins eru umdeild og viðbúið að ekki náist full sátt um málefnin, jafnvel meðal stjórnarflokkanna. Bjarni varði þó samstarfið í ræðu sinni á Alþingi.

„Þó að margir hafi hagsmuni af því að mála árangursríkt samstarf síðustu ára dökkum litum er raunin sú að samstarfið hvílir á góðum grunni; grunni sem allt í senn er traustur, byggir á drjúgum þingmeirihluta, sáttmála um málefnin sem ráða för og sameiginlegri trú okkar á tækifærin í íslensku samfélagi,“ sagði Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.