Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um skipan ráðherranefnda. Ráðherranefndum fækkar um þrjár frá fyrri skipan og verðu nú fimm ráðherranefndir starfandi. Þetta kemur fram í tilkynningu forsætisráðuneytisins.

Ákveðið var að setja á fót tvær ráðherranefndir, annars vegar um loftslagsmál og hins vegar um samræmingu mála er varða fleiri en eitt ráðuneyti.

Ekki verða lengur starfandi sérstakar ráðherranefndir um íslenska tungu, jafnréttismál og málefni innflytjenda og flóttafólks heldur verður áfram fjallað um þessi málefni í ráðherranefnd um samræmingu mála.

Þrjár ráðherranefndanna eru lögbundnar samkvæmt ákvæðum laga um Stjórnarráð Íslands en það eru ráðherranefnd um ríkisfjármál, ráðherranefnd um efnahagsmál og ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun.

Samhæfa stefnu þar sem málefnasvið ráðherra skarast

Hlutverk hinnar nýju ráðherranefndar um samræmingu mála er að samhæfa stefnu og aðgerðir í málum þar sem málefnasvið og ábyrgð ráðherra skarast og tryggja vandaðan undirbúning mála og upplýsingaflæði á milli ráðherra. Nefndinni er auk þess ætlað að fylgja eftir innleiðingu verkefna í stjórnarsáttmála með markvissum hætti.

Þá er skilgreint hlutverk ráðherranefndar um loftslagsmál að efla samráð og samhæfingu meðal þeirra ráðuneyta sem vinna að framgangi loftslagsmála innan Stjórnarráðsins. Nefndinni er einnig ætlað að vera vettvangur fyrir pólitíska stefnumótun og umræður um aðgerðir á sviði loftslagsmála.

Nefndinni er jafnframt ætlað að koma að uppfærslu og framkvæmd aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum, fjalla um umræður á alþjóðavettvangi um nýjar skuldbindingar og stefnu Íslands varðandi kolefnishlutleysi.