Keflvíkurverktakar hyggjast reisa nýja 3.900 fermetra verslunar- og þjónustumiðstöð við Stapabraut í Reykjanesbæ. Byggingin verður staðsett á lóð KV ofan nýs Tjarnarhverfis í Innri-Njarðvík við hlið Kaffitárs. Viðræður standa yfir við nokkra aðila sem hug hafa á að vera með verslanir, veitingarekstur, bensínstöð og aðra þjónustu í verslunarmiðstöðinni.

Staðsetning hennar er talin mjög ákjósanleg til að þjónusta þann mikla fjölda heima- og ferðamanna sem leið eiga um svæðið og einnig til að þjónusta nálæga byggð.

Unnið er að hönnun hússins en ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvenær framkvæmdir hefjast.

Hönnun verslunarmiðstöðvarinnar er í höndum Alark-arkitekta ehf.