„Verði samið um launakjör á þeim nótum sem nú er rætt um á milli ASÍ og SA mun það leiða til heldur meiri verðbólguþrýstings en við höfðum gert ráð fyrir,“ segir greining Íslandsbanka í Morgunkorni í dag. Þar segir að þrátt fyrir það sé líklegt að launahækkanir skili launafólki nokkurri kaupmáttaraukningu.

„Samkvæmt fréttum fjölmiðla í morgun hljóðar það tilboð sem nú er á borðinu upp á 13% hækkun launa á næstu þremur árum, og að launþegar fái 50 þúsund króna eingreiðslu í kjölfar undirritunar samningsins. Ef gert er ráð fyrir að 13% hækkunin dreifist jafnt á árin þrjú og miðað er við meðallaun eins og þau voru í fyrra (391 þúsund á mánuði skv. Hagstofu Íslands) eykst launakostnaður vinnuveitenda að jafnaði um 6% það sem eftir lifir árs samkvæmt ofangreindum drögum. Er þá bæði reiknað með áhrifum ríflega 4% samningsbundinnar hækkunar og eingreiðslunnar.“

Greining segir að ljóst megi vera að mörg fyrirtæki muni þurfa að velta þessum kostnaðarauka að verulegu leyti út í verðlag. Það eigi sérstaklega við um fyrirtæki sem veita innlenda þjónustu og framleiða vörur fyrir innlendan markað. Útflutningsgeirar hafi líklega öllum meira borð fyrir báru að taka á sig slíka hækkun, vegna hagstæðra rekstrarskilyrða að öðru leyti.

Horfur á nokkurri kaupmáttaraukningu

„Þrátt fyrir þetta er líklegt að launahækkun á borð við þá sem nú er í umræðunni skili launafólki nokkurri kaupmáttaraukningu á næstu misserum. Útlit er nú fyrir að verðbólga í lok árs verði tæplega 3,5% og að á næsta ári verði verðbólgan í grennd við 3%. Miðað við það gæti kaupmáttaraukningin orðið í kring um 1% hvort ár. Það ræðst svo vitaskuld af öðrum áhrifaþáttum á neysluverð á borð við gengisþróun krónu, húsnæðisverð og verðþróun á hrávörumörkuðum erlendis hvort þetta gengur eftir.“